„Frammistaðan var góð og mér fannst við gera nóg til þess að fara áfram en svona er fótboltinn þetta er pirrandi. í fyrri hálfleik eigum við að komast yfir og það hefði breytt gangi þessa leiks en svona er boltinn. Tvö góð lið að mætast og þetta féll þeirra meginn í dag en strákarnir lögðu allt í þessar 120 mínutur og ég er stoltur af þeim. Frammistaðan var góð og við tökum það með okkur í næstu leiki." Segir Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar eftir svekkjandi tap gegn Kórdrengjum í Mjólkurbikarnum.
Lestu um leikinn: Kórdrengir 2 - 1 Afturelding
Færanýting Aftureldingar var ekki upp á marga fiska í dag og fékk liðið mörg færi í lok fyrri hálfleiks sérstaklega.
„Við fengum færin þá en við fáum líka færi í seinni hálfleik og jöfnum og fengum líka færi í framlengingunni en svona er boltinn. Við áttum flotta spilkafla. Fyrri markið þeirra kemur beint úr fyrirgjöf. Þetta er stundum skrýtinn leikur. Kórdrengir spiluðu vel og fengu líka færi. Þetta var ekta bikarleikur sem var 50/50 leikur og í dag vorum við röngu megin við borðið."
Í lok leiks vildu sumir Mosfellingar fá vítaspyrnu eftir klafs í teignum. Dómari leiksins dæmdi hinsvegar í hina áttina.
„Mér fannst skrýtið að hann dæmdi aukaspyrnu á okkur þar. Það var mikil hrúga í teignum og kannski sá hann eitthvað en ég sá brot á þá og fannst klárlega tilefni til að flauta vítaspyrnu þar. Þetta gerist á seinustu sekúndu leiksins og þetta hefði verið stór dómur hefði hann flautað og kannski spilaði það inn í þetta,"
Afturelding hefur unnið seinustu tvo deildarleiki og hafa nú smá andrými í fallbaráttunni.
„Við erum að horfa á að safna sem flestum stigum og erum ekki að horfa mikið í töfluna. Við vitum hvað við getum þegar við spilum vel og við höfum gert í seinustu tveimur leikjum og líka í dag og við vitum hvað í okkur býr. Núna er trú og sjálfstraust í hópnum. Við viljum meira og erum svekktir í kvöld en á morgun er nýr dagur og þá undirbúum við okkur undir leik gegn Fylki á Föstudaginn"
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir