Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, verður samningslaus um miðjan nóvember. Jökull Elísabetarson, þjálfari liðsins, segir ekkert fast í hendi með framtíð markvarðarins en hann vill ólmur halda Árna.
Árni hefur verið á mála hjá Stjörnunni frá árinu 2023. Hann hefur verið einn af lykilmönnum liðsins eftir að hann kom í Garðabæinn frá ÍA.
„Það á eftir að koma á hreint, hann býr upp á Akranesi og þarf að melta sín mál. Ég er alveg rólegur, við þurfum bara að gefa honum svigrúm. Hann er frábær karakter og auðvitað frábær markmaður. Við bara sjáum til,“ sagði Jökull í viðtali eftir leik Stjörnunnar og Breiðabliks í gær.
Þið viljið halda honum?
„Að sjálfsögðu, 100 prósent. Hann hefur verið frábær síðan að hann kom og er mikilvægur karakter í hópnum. Þetta kemur í ljós, eins og með öll leikmannamál. Það á eftir að koma í ljós með allt.“
Viðtalið við Jökul má sjá hér fyrir neðan og er hann spurður út í Árna Snæ eftir rúmar fimm mínútur.



