Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   fös 27. desember 2024 12:55
Elvar Geir Magnússon
Raunhæft að VAR komi inn í íslenska boltann 2026
VAR skjár á Laugardalsvelli.
VAR skjár á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur Hjaltalín, fyrir miðju.
Þóroddur Hjaltalín, fyrir miðju.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við erum á fullu að vinna í því að skoða möguleikana, ferlið og hugsanlegan kostnað við þetta. Við höfum verið að ræða við fyrirtæki sem gætu komið með okkur inn í þetta," segir Þóroddur Hjaltalín, starfsmaður í dómaramálum hjá KSÍ, þegar hann er spurður út í stöðuna á VAR málum á Íslandi.

Á fundi með formönnum og framkvæmdastjórum nýlega voru kynntar ákveðnar hugmyndir.

„Ég legg áherslu á að við gerum þetta í góðu samstarfi við félögin. Sama hvað fólki finnst persónulega um VAR þá er þetta komið til að vera og við þurfum að horfast í augu við það og hljótum að ætla að taka þátt í því," segir Þóroddur.

Að taka upp VAR er heljarinnar innleiðingarferli og eru fundir framundan með FIFA, alþjóðlega fótboltasambandinu, eftir áramót. Í kjölfarið verður mögulega hægt að setja upp ákveðna áætlun um að taka upp VAR í íslenska boltanum. En hvenær er raunhæft að VAR byrji að rýðja sér til rúms hér á landi ef ferlið heldur áfram að þróast?

„Þetta er allt að ýtast í rétta átt og ég tel að það sé raunhæft að stefna á það 2026," segir Þóroddur. Hann segir það hjálpa að ekki þurfi að finna upp hjólið og hægt að fá ráðleggingar og aðstoð frá nágrannalöndum okkar sem hafa tekið upp VAR myndbandsdómgæsluna.

Mörg lönd hafa stigið fyrsta skrefið með VAR með því að taka upp tæknina í völdum leikjum eða ákveðnum mótum. Ekki er ólíklegt að það verði þannig einnig hér á landi.
Athugasemdir
banner
banner