Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   mið 28. febrúar 2024 12:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir Man Utd hafa valið rangan Ant(h)ony
Antony hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.
Antony hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.
Mynd: Getty Images
Anthony Elanga.
Anthony Elanga.
Mynd: Getty Images
Í dag er skrifuð áhugaverð grein á fjölmiðilinn Goal þar sem fjallað er um það að Manchester United hafi valið rangan Anthony síðasta sumar.

Síðasta sumar var Anthony Elanga seldur frá Man Utd til Nottingham Forest fyrir 15 milljónir punda.

Elanga hafði verið hjá United frá því hann var tólf ára gamall og komið upp úr akademíunni. Um tíma þegar Ralf Rangnick var stjóri United þá var hann uppáhalds leikmaður stuðningsmanna. Hann skoraði til að mynda eftirminnilegt jöfnunarmark gegn Atletico Madrid og þá sungu stuðningsmenn liðsins: „Rhythm is a dancer, Anthony Elanga, come and stop him if you dare."

Elanga var ljós punktur á ömurlegu 2021/22 tímabili hjá Man Utd en náði ekki að fylgja því nægilega vel eftir á tímabilinu þar á eftir. Erik ten Hag tók við sem stjóri liðsins og hann keypti leikmann sem hann þekkti vel frá Ajax, Brasilíumanninn Antony. Man Utd borgaði fyrir hann 100 milljónir evra en í dag líta þau kaup vægast sagt hörmulega út fyrir United.

Elanga byrjaði aðeins fimm deildarleiki á síðasta tímabili en hann vildi fá stærra hlutverk og var því seldur til Forest síðasta sumar. Í slöku Forest liði hefur hann komið að tólf mörkum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu; hann hefur skorað fimm mörk og lagt upp sjö. Enginn í Forest hefur komið að fleiri mörkum.

„Ég sá hvað Ten Hag gerði hjá Ajax og ég var spenntur, en ég fékk ekki tækifærin. Ég vildi spila og ég vildi ekki eyða öðru tímabili í að fá tíu mínútur hér og þar, eða ekki spila í tíu leikjum í röð. Ég vildi ferskt upphaf en það var ekki auðvelt að yfirgefa félag sem ég hafði verið hjá í níu ár," sagði Elanga eftir að hann fór frá Man Utd.

Antony, maðurinn sem fékk traustið á kostnað Elanga, skoraði fjögur mörk og lagði upp tvö í 25 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Á þessu tímabili hefur hann spilað 20 leiki án þess að skora mark eða leggja upp. Brasilíski kantmaðurinn er búinn að vera hörmulegur á tímabilinu en eina liðið sem hefur ekki tekist að stöðva hann er Newport County úr D-deild.

„Elanga hefur nú þegar gefið United ástæðu til að trúa því að þeir hafi gert mistök og ef hann sparkar þeim út úr FA-bikarnum munu stjórnendur félagsins og ekki síst Ten Hag sparka í sjálfa sig," segir í frétt Goal.

Forest hefur nú þegar farið með sigur af hólmi gegn Man Utd einu sinni á tímabilinu en það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar liðin mætast í FA-bikarnum í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner