Egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah skoraði 185. deildarmark sitt í ensku úrvalsdeildinni í 5-1 sigrinum á Tottenham í gær og er nú kominn fram úr Sergio Aguero á listanum.
Aguero er talinn einn besti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og vann ótalmarga titla á tíma sínum hjá Manchester City.
Hann skoraði 184 deildarmörk á tíu árum sínum þar og spilaði hann sem fremsti maður.
Salah gerði fjórða mark Liverpool gegn Tottenham og fór um leið fram úr Aguero á listanum yfir markahæstu menn í sögu deildarinnar.
Egyptinn situr nú í 5. sæti með 185 mörk, aðeins tveimur á eftir Andy Cole sem er í 4. sæti.
Salah hefur að minnsta kosti tvö tímabil til viðbótar til að færa sig ofar á listann. Wayne Rooney er í þriðja sæti með 208 mörk, Harry Kane í öðru sæti með 213 mörk og síðan er Alan Shearer í efsta með 260 mörk.
Það er því raunhæfur möguleiki fyrir Salah að komast í annað sætið, en þyrfti líklega að framlengja samning sinn um að minnsta kosti ár til viðbótar til þess að eiga einhvern möguleika á að ná Shearer.
Athugasemdir