
Icelandair endurnýjaði í gær samstarfssamning við Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ). Skrifað var undir samninginn á Keflavíkurflugvelli í dag við upphaf ferðalags íslenska kvennalandsliðsins á EM 2022.
Með samstarfinu mun Icelandair styðja dyggilega við starf KSÍ og starf landsliða Íslands en rekstur landsliða felur í sér mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim. Í samningi Icelandair og KSÍ er sérstök áhersla á jafnréttismál og er meðal annars að finna nýtt ákvæði sem felur í sér að fjármunum samningsins sé jafnt varið á milli kynja. Samningurinn gildir út árið 2025.
Ferð landsliðsins er fyrst heitið til Þýskalands í æfingabúðir. Liðið leikur svo vináttuleik við Pólland þann 29. júní og heldur ferðalaginu því næst áfram til Englands þar sem Evrópumeistaramótið hefst 6. júlí næstkomandi. Fyrsti leikur Íslands er við Belgíu þann 10. júlí í Manchester.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sagði við þetta tilefni „Samstarf okkar við KSÍ og önnur íþróttasambönd hefur verið mjög farsælt um langt árabil og við erum stolt af því að halda áfram að styðja myndarlega við íþróttastarf á Íslandi. Við erum mjög ánægð með nýtt jafnréttisákvæði í samningnum sem tryggir að fjármunum sé jafnt varið milli kynja. Það er vel við hæfi að kynna það nú þegar okkar öfluga kvennalandslið hefur ferðina á EM 2022. Við munum fylgjast spennt með og fylgja þeim alla leið í þeirri vegferð.“
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ sagði: „Við erum afar ánægð með að endurnýja samninginn við Icelandair, sem hefur stutt dyggilega við starf KSÍ og við íslensku landsliðin um langt árabil. Ferðalög landsliða eru auðvitað stór þáttur í okkar starfsemi og samstarfið við Icelandair er og hefur verið ómetanlegt."