Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 28. júlí 2021 22:14
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lengjudeildin: Pétur Bjarna hafði betur gegn nafna sínum
Lengjudeildin
Pétur Bjarnason gerði þrennu fyrir Vestra.
Pétur Bjarnason gerði þrennu fyrir Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri 4 - 3 Grótta
1-0 Pétur Bjarnason ('23)
2-0 Pétur Bjarnason ('56)
2-1 Pétur Theódór Árnason ('74)
2-2 Pétur Theódór Árnason ('83)
3-2 Benedikt V. Warén ('84)
4-2 Pétur Bjarnason ('88)
4-3 Arnar Þór Helgason ('89)
Rautt spjald: Jesus Maria Meneses Sabater, Vestri ('74)

Vestri vann flottan sigur gegn Gróttu í miklum markaleik í Lengjudeildinni í kvöld.

Pétur Bjarnason var í miklu stuði í kvöld og hann sá til þess að Vestri var með 1-0 forystu þegar flautað var til hálfleiks.

Í seinni hálfleiknum var blásið til markaveislu. Pétur kom Vestra í 2-0 en svo skoraði nafni hans Pétur Theódór Árnason tvennu og jafnaði metin fyrir Gróttu. Pétur Theódór hefur verið algjörlega frábær í sumar og er núna búinn að skora 16 mörk í 14 deildarleikjum. Það eru háværar sögur um að hann sé búinn að semja við Breiðablik fyrir næstu leiktíð.

Benedikt V. Warén kom Vestra í 3-2 og Pétur fullkomnaði þrennu sína er hann gerði fjórða mark Vestra. Varnarmaðurinn Arnar Þór Helgason minnkaði muninn fyrir Gróttu en lengra komust gestirnir ekki, og lokatölur því 4-3.

Þess verður að geta að Vestri var einum færri frá 74. mínútu og sýndi liðið gríðarlegan karakter að landa þessum sigri, tíu gegn ellefu leikmönnum Gróttu.

Vestri hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar. Liðið er með 22 stig í fimmta sæti. Grótta er í áttunda sæti með 17 stig.

Önnur úrslit í kvöld:
Lengjudeildin: Ófarir Grindavíkur héldu áfram í Grafarvogi
Athugasemdir
banner
banner
banner