
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur hótað að setja landslið Túnis í bann vegna hótana frá ríkisstjórn landsins um að leysa upp knattspyrnusambandið þar í landi.
Samkvæmt reglum FIFA mega knattspyrnusambönd þjóða ekki vera með neinar pólitískar tengingar og má utanaðkomandi aðili, svo sem ríkisstjórn, ekki reyna að hafa áhrif á hin ýmsu málefni sem er fengist við innan sambandsins.
Íþróttamálaráðherra Túnis, Kamel Deguiche, hefur hótað því ítrekað að knattspyrnusambandið verði leyst upp og ákvað FIFA í kjölfarið að senda aðvörun til Túnis.
Túnis er í riðli með Danmörku, Frakklandi og Ástralíu á HM í Katar en gæti misst sæti sitt á mótinu ef ríkisstjórnin þar í landi hættir ekki að skipta sér af knatspyrnusambandinu.
Verði Túnis ekki við beiðni FIFA mega félagslið frá landinu heldur ekki keppa í neinum opinberum mótum. Ríkisstjórn Túnis hefur fengið frest til föstudags til að gefa svar og útskýra stöðu sína.
Túnis er að mæta á HM í sjötta sinn en þjóðin hefur aldrei komist upp úr riðlakeppninni.
Sem stendur eru Simbabve og Kenía í skammarkróknum hjá FIFA vegna utanaðkomandi áhrifa á knattspyrnusamböndin þar.