Með góðum markmannsþjálfurum koma góðir markmenn
Packie Bonner er orðinn mikill Íslandsvinur en hann lék á sínum tíma 80 landsleiki fyrir Írland, þar af tvisvar á HM og einu sinni á EM. Þá lék hann 642 leiki með Celtic í Skotlandi, er leikjahæsti markmaður í sögu félagsins og fimmti leikjahæsti leikmaður í sögu Celtic.
Bonner hefur yfirumjón með veigamiklu og metnaðarfullu markmannsþjálfaranámskeiði sem KSÍ stendur fyrir ásamt UEFA. Markmiðið er að bæta íslenska markmannsþjálfun en Fótbolti.net hitti Bonner á dögunum.
Hvernig er íslensk markmannsþjálfun?
„Hún er á byrjunarstigi og mjakast áfram. Það er nóg af markmannsþjálfurum en þeir þurfa að læra og það er markmiðið með þessu markmannsþjálfaranámskeiði. Við erum að reyna að bæta þennan þátt," segir Bonner.
Bonner er hrifinn af því hvað Ísland hefur framleitt marga öfluga fótboltamenn en afar fáir markverðir hafa þó náð langt utan landsteinana. Hann segir að með réttri þjálfun sé hægt að breyta þessu.
„Venjulega er um að ræða leikmenn sem eru með góða líkamsbyggingu og hafa spilað aðrar íþróttir sem geta hjálpað þeim sem markverðir. Ég spilaði sjálfur ruðning og það hjálpaði mér varðandi ýmsa þætti. Það þarf bara að auka gæði þjálfunar hjá félögunum, vonandi hjálpar þetta námskeið. Ef við fáum góða markmannsþjálfara þá verða framleiddir góðir markverðir."
Í sjónvarpinu hér að ofan má sjá viðtal sem Magnús Már Einarsson tók við Bonner.
Athugasemdir