Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   sun 29. maí 2022 17:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liverpool ætlaði að gera stórt tilboð í Son
Son Heung-min.
Son Heung-min.
Mynd: Getty Images
Liverpool var að íhuga að gera stórt tilboð í Son Heung-min, framherja Tottenham, áður en Lundúnafélagið tryggði sér Meistaradeildarsæti.

Þetta herma heimildir football.london.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, er mikill aðdáandi Son og hefði viljað bæta honum við sitt lið í ljósi þess að Sadio Mane langar í nýja áskorun í sumar.

Liverpool ætlaði að kanna hug Tottenham með því að gera stórt tilboð í hinn 29 ára gamla Son ef félagið hefði misst af Meistaradeildarsæti eins og útlit var fyrir lengi. En á lokasprettinum kastaði Arsenal frá sér fjórða sætinu og Spurs nýtti sér það. Það hefði verið högg fjárhagslega fyrir Spurs að missa af því að komast í Meistaradeildina.

Son endaði sem markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu sem var að klárast ásamt Mohamed Salah, leikmanni Liverpool.

Suður-Kóreumaðurinn brosmildi hefur talað um það að hann sé spenntur fyrir því að spila aftur með Spurs í Meistaradeildinni og nýtur hann þess að leika fyrir Antonio Conte.

Það er óvíst hvað hefði gerst ef Tottenham hefði misst af Meistaradeildarsæti; hvort að Spurs hefði freistast til þess að selja Son ef gott tilboð hefði borist og hvort Son hefði einfaldlega beðið um sölu til þess að spila í sterkustu keppni Evrópu. En félagið komst þangað, ætlar að halda Conte sem stjóra og halda í sína bestu menn.

Mane er að öllum líkindum á förum frá Liverpool í sumar og félagið er að leita að einhverjum í hans stað. Sá leikmaður kemur ekki til með að vera Son, kannski sem betur fer fyrir félög sem stefna að því að ná Manchester City og Liverpool.
Athugasemdir
banner
banner
banner