Man City setur verðmiða á Cancelo - Simons eftirsóttur - Lille hafnar Liverpool
   sun 05. maí 2024 18:09
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Ásgeir bjargaði stigi fyrir KA - Smit rekinn af velli fyrir að tefja
Guy Smit fékk tvö gul á einni mínútu og var rekinn af velli
Guy Smit fékk tvö gul á einni mínútu og var rekinn af velli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Sigurgeirsson gerði jöfnunarmark KA
Ásgeir Sigurgeirsson gerði jöfnunarmark KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli hefur verið öflugur í byrjun tímabils
Atli hefur verið öflugur í byrjun tímabils
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 1 - 1 KR
0-1 Atli Sigurjónsson ('3 )
0-1 Benoný Breki Andrésson ('8 , misnotað víti)
1-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('77 )
Rautt spjald: Guy Smit, KR ('73) Lestu um leikinn

KA og KR deildu stigunum er þau mættust í 5. umferð Bestu deildar karla á Greifavelli í dag en lokatölur urðu 1-1. Guy Smit, markvörður KR, fékk heimskulegt rautt spjald þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Gestirnir úr Vesturbænum voru ekki lengi að koma sér af stað. Atli Sigurjónsson gerði þetta afar einfalt. Ægir Jarl Jónasson fann Atla hægra megin, sem smellti honum bara á vinstri fótinn og setti boltann örugglega í markið, óverjandi fyrir Steinþór Má Auðunsson í markinu.

KR-ingar gátu tvöfaldað forystuna nokkrum mínútum síðar er Ívar Örn Árnason tók Atla niður í teignum.

Benoný Breki Andrésson fór á punktinn og setti þéttingsfast skot í hægra hornið en Steinþór sá við honum og setti boltann í horn.

KR-ingar voru allt í öllu fyrstu tíu mínúturnar en KA-menn náðu að koma sér betur inn í leikinn og var jafnræði með liðunum restina af hálfleiknum.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn sterkt. Elfar Árni Aðalsteinsson fékk algert dauðafæri í teignum sem Axel Óskar Andrésson svo hetjulega stökk fyrir og bjargaði þeim svarthvítu.

Það var aðeins tímaspursmál hvenær jöfnunarmarkið kæmi. KA var að hóta KR-ingum trekk í trekk. Heimamenn voru allt annað en sáttir þegar tuttugu mínútur voru eftir er Guy Smit, markvörður KR, tók Ásgeir niður. Ásgeir var fljótur á lappir og klár í að skora, en þá var Twana Khalid, dómari leiksins, búinn að flauta.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Smit rekinn af velli fyrir glórulaust atvik. Hann tók sér allt of langan tíma í að taka markspyrnu og fékk því sitt annað gula spjald og því sendur í sturtu. Smit hafði fengið tiltal frá Khalid fyrr í leiknum fyrir leiktöf, en þær samræður hafa farið inn um eitt eyra og út um hitt.

KA nýtti sér liðsmuninn og jafnaði fjórum mínútum síðar. Ásgeir með skalla eftir fyrir gjöf Hans Viktors Guðmundssonar. Ásgeir gat tryggt öll stigin sex mínútum síðar en náði ekki að stýra sendingu Ívars Arnar í netið.

Liðin sættust á að deila stigunum í þetta sinn. Lokatölur 1-1, KR nú með 7 stig eftir fimm leiki á meðan KA var að ná í annað stigið sitt í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner