sun 05.maí 2024 09:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 2. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Því er spáð að ÍBV endi í öðru sæti og fari upp úr deildinni.
Guðný Geirsdóttir er öflugur markvörður sem var valin í landsliðið í fyrra.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1.
2. ÍBV, 134 stig
3. Fram, 122 stig
4. HK, 101 stig
5. FHL, 99 stig
6. Grindavík, 81 stig
7. Selfoss, 76 stig
8. Grótta, 61 stig
9. ÍA, 56 stig
10. ÍR, 21 stig
2. ÍBV
Síðasta sumar var ömurlegt í Vestmannaeyjum þar sem öll mögulega lið í fótboltanum féllu niður um deild. Kvennalið ÍBV var í áttunda sæti þegar Besta deildin skiptist í fyrra, en eftir skiptingu tapaði Eyjaliðið tveimur leikjum af þremur og fall var niðurstaðan. Þetta verður fyrsta sumarið 2010 að ÍBV verður ekki með lið í efstu deild kvenna, en kannski er það bara gott fyrir félagið. Síðustu ár hafa ekki verið sérlega góð og fallið hlýtur að hafa verið ákveðin vakning fyrir félagið allt. Það þarf að gera betur í Vestmannaeyjum. Ef spáin rætist, þá fer ÍBV beint aftur upp en það verður fróðlegt að sjá hvort það gengur eftir.
Þjálfarinn: Jón Óli Daníelsson er aftur tekinn við ÍBV en hann gerði samning til fimm ára við félagið í vetur. Jón Óli er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu en hann þjálfaði meistaraflokk kvenna frá 2007 til 2014 og svo aftur 2019 ásamt því að hafa verið yfirþjálfari félagsins. Síðast gekk liðinu vel undir stjórn Jóns Óla - var meðal annars í toppbaráttu í efstu deild - og félagið er að vonast til að það verði þannig aftur. Sigríður Lára Garðarsdóttir, ein besta fótboltakona sem hefur komið frá Vestmannaeyjum, verður aðstoðarþjálfari og það er skemmtilegt.
Styrkleikar: ÍBV er líklega með besta leikmann deildarinnar. Það er magnað að Olga Sevcova ætli sér að taka slaginn með Eyjakonum í sumar en öll liðin í Bestu deild kvenna væru örugglega til í að hafa hana í sínum röðum. Olga ætti að minnsta kosti að geta skorað tíu mörk og lagt upp tíu ofan á það í þessari deild ef allt gengur upp. Það er ágætis kjarni af heimakonum í liðinu og Jón Óli hefur sýnt það og sannað að hann veit alveg hvað hann er að gera. Hann er með mikið Eyjahjarta og þykir vænt um félagið. Það er alltaf erfitt að koma á Hásteinsvöll og ÍBV ætti að geta myndað sterkan heimavöll þarna.
Veikleikar: Tilfinningin er sú að það hefur ekki verið neitt rosalega mikil stemning í kringum ÍBV á síðustu árum. Það þarf að endurvekja endurvekja stemninguna í kringum liðið á nýjan leik og núna er kjörinn tími til þess. ÍBV hefur ekki mikið náð að stilla upp sínu sterkasta liði í vetur og hefur árangurinn ekki verið góður á undirbúningstímabilinu. Þær verða að gleyma þeim úrslitum núna og koma að krafti inn í mótið. Varnarleikurinn var ekki merkilegur í fyrra og þær missa leiðtoga úr vörninni Haley Marie Thomas sem er ekki gott. Aðrir leikmenn þurfa að stíga upp í hennar stað. Þá verður Kristín Erna Sigurlásdóttir líklega ekki mikið með í sumar en það væri mjög gott fyrir liðið að hafa hana og hennar reynslu.
Lykilmenn: Olga Sevcova, Sandra Voitane og Guðný Geirsdóttir.
Fylgist með: Kristín Klara Óskarsdóttir, stelpa fædd árið 2009, hefur verið að fá mörg tækifæri í vetur. Hún hefur verið viðloðandi yngri landsliðin og er mjög svo spennandi leikmaður. Vonandi fær hún bara gott hlutverk í sumar.
Komnar:
Alexus Nychole Knox frá Noregi
Natalie Viggiano frá Portúgal
Sandra Voitane frá Keflavík
Farnar:
Caeley Michael Lordemann
Camila Lucia Pescatore
Chloe Hennigan í Vestra
Haley Marie Thomas til Þýskalands
Holly Taylor Oneill til Portúgals
Marinella Panayiotou
Alltaf ánægjulegt að geta hjálpað ÍBV
Jón Óli Daníelsson er mættur aftur til ÍBV og er spenntur fyrir komandi sumri í Vestmannaeyjum. „Já ég myndi segja það," segir Jón Óli aðspurður að því hvort spáin komi á óvart.
„Það var óvænt fyrir mig að taka aftur við liðinu en það er alltaf ánægjulegt að geta hjálpað ÍBV."
„Undirbúningstímabilið hefur verið afar fjölskrúðugt vegna ýmissa aðstæðna, svo sem vegna meiðsla, atvinnuleyfa, vallaraðstæðna og fleira. En að því slepptu hefur bara gengið ágætlega. Mikið af ungum leikmönnum að fá tækifæri. Það hafa verið miklar breytingar á hópnum, en ég er mjög sáttur með leikmannahópinn í dag."
Það má búast við afar áhugaverðri deild í sumar.
„Mér sýnist að allir muni geta unnið alla og að þetta verði mjög jafnt. Okkar markmið eru einföld; við tökum einn leik fyrir í einu og reynum að vinna hann."
„Gleðilegt knattspyrnusumar."
Fyrstu þrír leikir ÍBV:
5. maí, Afturelding - ÍBV (Malbikstöðin að Varmá)
13. maí, ÍR - ÍBV (ÍR-völlur)
23. maí, ÍBV - Grótta (Hásteinsvöllur)