Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 29. júní 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Reglubreyting í Serie A: Úrslitaleikur ef toppliðin enda jöfn
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Ítalska knattspyrnusambandið er búið að staðfesta reglubreytingu í Serie A.


Ef tvö lið enda jöfn á stigum á toppi deildarinnar, eins og var næstum búið að gerast hjá Milan og Inter í vor, þá verður spilaður úrslitaleikur þeirra á milli frekar en að úrskurða um sigurvegara útfrá innbyrðisviðureignum eins og hefur verið gert undanfarin ár.

Gabriele Gravina forseti knattspyrnusambandsins hefur lengi barist fyrir þessari reglubreytingu og tókst að fá hana í gegn fyrir næsta keppnistímabil, 2022-23.

Ef tvö lið enda jöfn í efsta sæti verður spilaður hreinn úrslitaleikur. Ef staðan er jöfn eftir 90 mínútur verður farið beint í vítaspyrnukeppni til að úrskurða um hvort liðið fær Ítalíumeistaratitilinn.

Þessi regla gildir aðeins um efsta sæti deildarinnar, ekki verða spilaðir umspilsleikir fyrir önnur lið sem enda jöfn heldur verður enn farið eftir úrslitum úr innbyrðisviðureignum.

Þetta er ekki ný regla á Ítalíu en síðast var það Bologna sem vann Ítalíumeistaratitilinn í úrslitaleik gegn Inter árið 1964 eftir að liðin höfðu endað jöfn. Þetta reyndist eini úrslitaleikur sögunnar í efstu deild ítalska boltans enda sjaldgæft að tvö lið endi jöfn á stigum.

Gravino segist einnig vera hlynntur því að innleiða umspilskeppni fyrir efstu sætin í Serie A, líkt og er gert í norður-amerísku MLS deildinni. Ólíklegt er þó að það ætlunarverk takist þar sem gríðarlega margir innan knattspyrnusambandsins eru mótfallnir þeirri hugmynd.


Athugasemdir
banner
banner
banner