Davíð Smári Lamude var að vonum gríðarlega sáttur með sigur Vestra gegn Gróttu í dag. Fótbolti.net ræddi við hann eftir sigurinn.
Lestu um leikinn: Vestri 3 - 0 Grótta
„Ég er hrikalega sáttur með þessa frammistöðu. Við áttum líklega okkar bestu frammistöðu síðan ég kom hingað, það er mín upplifun af leiknum," sagði Davíð.
Vestri hefur nú unnið þrjá og gert eitt jafntefli í síðustu fjórum leikjum eftir erfiða byrjun í sumar.
„Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur. Við höfum tapað einum leik af síðustu sjö held ég, þannig ég er bara hrikalega sáttur með þessa frammistöðu," sagði Davíð.
„Við erum að æfa vel og rétt milli þessara leikja. Ég vil koma því að það er gott að hafa góða menn í kringum sig, ég er með frábært teymi í kringum mig Daniel Osafo-Badu og Brenton (Muhammad). Svo erum við auðvitað með frábæra leikmenn, þetta gekk hrikalega vel í dag á gullfallegum Olísvellinum í góðu veðri, þetta verður ekki mikið betra en það."
























