Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
   mán 29. september 2025 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes: Erum bara nýbyrjaðir
Mynd: EPA
David Moyes þjálfari Everton svaraði spurningum eftir 1-1 jafntefli gegn sínum fyrrum lærlingum í liði West Ham í kvöld.

Hamrarnir voru að spila sinn fyrsta leik undir stjórn Nuno Espírito Santo eftir að hann tók við liðinu í fyrradag.

„Við áttum góða kafla í leiknum og skoruðum fyrsta markið en náðum ekki að gera annað, það hefði verið mikilvægt. Við gerðum mikið af góðum hlutum en náðum bara ekki að skapa rétta færið til að skora annað mark," sagði Moyes eftir jafnteflið.

„Sjálfstraustið hjá West Ham jókst og svo náðu þeir í jafnteflið. Við gerðum suma hluti vel og aðra illa en þetta var alltaf að fara að vera erfiður leikur gegn sterku fótboltaliði.

„Ég veit ekki hversu mikið eða hvernig West Ham mun breytast en ég veit að leikmennirnir í liðinu eru góðir. Ég þekki þá vel eftir að hafa þjálfað þá. Við erum að tala um að það eru brasilískir og enskir landsliðsmenn í leikmannahópinum hjá þeim. Hver sem heldur að West Ham sé ekki með gott lið hefur rangt fyrir sér. Þeir eru með sterkt lið og þeir sýndu það í kvöld.

„Við sýndum fína frammistöðu en náðum bara ekki að skora sigurmarkið."


Everton spilaði leikinn á sínum nýja heimavelli, Hill Dickinson Stadium.

„Við höfum verið fínir á heimavelli hingað til en við viljum vinna alla leiki sem við spilum hérna. Við viljum halda áfram að gera góða hluti, við viljum setja okkur hærri markmið en við megum ekki gleyma því að það er löng leið framundan. Við erum bara nýbyrjaðir."
Athugasemdir
banner