Tottenham var að ganga frá samningi við sóknarmanninn Jude Soonsup-Bell. Hann kemur frá nágrönnunum í Chelsea en það er football.london sem segir frá þessu.
                
                
                                    Soonsup-Bell varð 19 ára fyrr í þessum mánuði en samningaviðræður hans við Chelsea gengu hægt og illa. Það nýtti Tottenham sér.
Leikmaðurinn er í miklum metum hjá Chelsea en hann vildi fá að spila með aðalliðinu og Chelsea - sem hefur verið að versla mikið í janúar - sá sér ekki fært að lofa honum að það myndi gerast.
Manchester City hafði áhuga á leikmanninum sem skoraði 23 mörk í 25 leikjum fyrir U18 lið Chelsea. Hann var búinn að taka skrefið upp í U21 liðið og er búinn að skora tvö mörk í sjö leikjum þar.
Hann fór í læknisskoðun hjá Tottenham í dag og mun fara þangað á frjálsri sölu. Líklega mun hann fara í akademíuna fyrst um sinn en það verður fróðlegt að fylgjast með honum í framtíðinni.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
                    
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
             
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                 
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
        
