Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var vitaskuld svekktur eftir 2-1 tapið gegn Val í þriðju umferð Bestu-deildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 1 KR
KR-ingar gerðu vel í fyrri hálfleik og komust yfir á 18. mínútu en það var mikið högg að fá jöfnunarmark í bakið undir lok fyrri hálfleiks.
„Já maður er alltaf svekktur að tapa og sérstaklega í leik eins og í dag sem nokkuð jafn. Valsmenn draga lengsta stráið og sigra okkur hér," sagði Rúnar við Fótbolta.net.
„Við vorum mjög nálægt því að fara 1-0 inn í hálfleik og fáum mark á okkur seint. Ég segi kannski ekki að það hafi sett okkur útaf laginu en við vorum með plön hvernig við vildum laga það sem við gerðum ekki vel í síðustu fimmtán mínútunum í fyrri. Þar sem Valsmenn tóku yfir án þess að skapa mikið. Þeir sköpuðu sér hættulegar stöður á vængjunum og áttu nokkuð margar fyrirgjafir og við þurftum að laga það."
„Mér fannst við stíga vel upp í síðari og spila vel. KR með boltann í nokkrar mínútur og freisti Valsmenn til baka og svo snýst það við og bara tvö mjög góð og vel spilandi fótboltalið. Auðvitað eru þetta lið sem berjast líka og leggja á sig mikla vinnu. Það eru pústrar og slagsmál. Þetta er bara KR-Valur og hefur verið frá órófi alda."
„Bæði lið eru góð í því að halda bolta og spila út úr vörn. Geta spilað löngum bolta og pressað seinni bolta og góð í skyndisóknum, lið sem geta allt og hafa allt. Maður er sár og svekktur með að tapa eftir að hafa átt góða frammistöðu fyrir fimm dögum á móti Breiðablik og góða frammistöðu hér í dag og að fá núll stig fyrir það er dálítið blóðugt."
Sigurmark Vals þótti umdeilt. KR-ingar vildu fá aukaspyrnu er það var keyrt inn í Theodór Elmar Bjarnason. Valsmenn náðu boltanum og keyrðu upp áður en brotið var á Patrick Pedersen og skoraði Jesper Juelsgård úr spyrnunni. KR-ingar voru brjálaðir yfir dómgæslunni í leiknum og ræddi Rúnar aðeins það atvik.
„Eigum við ekki að leyfa ykkur að dæma um það? Það er gengið yfir Theodór Elmar þegar hann er að reyna senda boltann til baka og fyrir vikið nær hann ekki að sparka almenninlega í boltann því það er hrint í bakið á honum og það er hlaupið yfir hann. Ferðast í fimm metra í stað fyrir tíu þegar það eru fimmtán sem þú átt að ferðast. Það á eitthvað eftir að gerast og maður er aldrei sáttur og sérstaklega þegar maður stendur alveg ofan í þessu og fjórði dómarinn stendur alveg ofan í þessu og aðstoðardómarinn líka nálægt þessu."
„Þetta er svekkjandi en þýðir ekkert fyrir mig að standa og grenja hérna alla daga yfir einhverjum dómum sem að áttu eða áttu ekki að koma en þeir verða að eiga það við sig og vonandi getum við snúið þessu við sjálfir og reynt að spila betur og passa að fá ekki á okkur mörk en það er erfitt þegar mönnum er hrint og tapar boltanum illa og færð á þig skyndisókn fyrir vikið," sagði Rúnar en viðtalið má sjá hér fyrir ofan.
Athugasemdir