
Rúnar Páll Sigmundsson, annar af tveimur aðalþjálfurum Stjörnunnar, var hæstánægður eftir 2-1 sigur á Víkingum í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Stjarnan
„Við vorum feykilega öflugir í fyrri hálfleik og spiluðum góðan hálfleik. Það var ótrúlega sterkur og góður andi í okkur. Við ætluðum áfram og okkur tókst það," sagði Rúnar Páll.
„Víkingarnir eru með frábært lið og það má ekki taka af þeim. Við erum líka frábærir sjálfir."
Liðin mættust í Pepsi Max-deildinni síðastliðið mánudagskvöld og þá var niðurstaðan 1-1 jafntefli.
„Það er stutt síðan við spiluðum við þá og við reyndum að halda betur í boltann. Okkur tókst það, við losuðum fyrstu pressuna og komumst í hættulegar sóknir. Mér fannst þeir ekki fá mörg færi fyrir utan í blálokin."
Stjörnumenn eru nýkomnir í sóttkví, en núna í morgun var gripið til harðari aðgerða í baráttunni gegn hinni ömurlegu kórónuveiru. Það verður gert frí á fótbolta til 5. ágúst að minnsta kosti. Hvernig leggst það í Rúnar og mannskapinn?
„Alveg frábærlega," sagði Rúnar léttur. „Við vitum ekki hvenær við spilum næst og tökum okkur 1-2 daga í frí. Þetta eru skrýtnir tímar."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir