KA vann flottan 3-0 útisigur gegn FH í Kaplakrikanum í kvöld. Fyrir lokaumferðina heldur Akureyrarliðið því í vonina um að geta endað í efri hluta tvískiptingarinnar en þá þarf það að vinna Fylki og vona að önnur úrslit endi því í hag.
Lestu um leikinn: FH 0 - 3 KA
„Ég er ótrúlega sáttur, við vissum að þetta yrði erfitt og við þyrftum að mæta þeim í baráttu. Sem við gerðum. Við vorum vel skipulagðir til baka og náðum loksins að halda hreinu. Svo vorum við beinskeyttir fram á við," sagði Ívar Örn Árnason fyrirliði KA eftir leikinn í Krikanum.
FH nýtti ekki færin sín til að skora í fyrri hálfleiknum en liðið fékk tækifæri til að skora fyrsta mark leiksins áður en KA komst yfir. Hrannar Björn Steingrímsson bjargaði á línu frá Kjartani Henry Finnbogasyni á 8. mínútu.
„Þetta er móment sem kveikir í mönnum eða slekkur í mönnum. Í þessu tilfelli kveikti það á okkur."
KA kláraði seinni hálfleikinn af mikilli fagmennsku og lokaði vel á FH.
„Rodri var svolítið nálægt okkur Dusan og var að vinna vel með. Okkur leið mjög vel og mér fannst þeir aldrei vera í opnu tækifæri og spiluðu aldrei í gegnum okkur. Mér fannst þetta algjör varnarsigur í dag og sóknin var beinskeytt."
Athugasemdir