banner
   mið 31. mars 2021 23:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kom aldrei til greina að skilja Alfons eftir
Icelandair
Alfons á æfingu með U21 landsliðinu.
Alfons á æfingu með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted kom við sögu í einum leik í þessu A-landsliðsverkefni sem var að ljúka.

Hann spilaði gegn Þýskalandi þar sem Ísland þurfti að sætta sig við 3-0 tap, en Birkir Már Sævarsson spilaði hina tvo leikina gegn Armeníu og Liechtenstein. Birkir Már var í banni gegn Þýskalandi.

Alfons spilaði stórt hlutverk í U21 landsliðinu sem tók þátt í undankeppni EM og komst inn á mótið. Hann tókst hins vegar ekki þátt í riðlakeppninni á lokamótinu þar sem hann var í A-landsliðsverkefninu.

Arnar Þór Viðarsson, A-landsliðsþjálfari og fyrrum U21 landsliðsþjálfari, var spurður að því á fréttamannafundi í kvöld hvort það hefði verið betra fyrir Alfons að fara í U21 landsliðið í þessum glugga.

„Alfons var kominn of langt. Hann spilaði alla leiki í Noregi í fyrra og varð meistari. Hann og Birkir Már eru okkar tveir hægri bakverðir. Það var aldrei möguleiki að skilja Alfons eftir," sagði Arnar.

„Hann spilar leik á móti Þýskalandi og það er ákveðið skref."

Alfons hefur núna spilað þrjá A-landsleiki fyrir Íslands hönd en hann er 22 ára gamall.
Athugasemdir
banner
banner
banner