Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 31. október 2024 16:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Kveður HK stoltur og þakklátur - „Erfitt að segja það upphátt"
Ómar Ingi Guðmundsson er hættur sem þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson er hættur sem þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK fagnar marki í sumar.
HK fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ómar hafði starfað hjá HK í fjölmörg ár.
Ómar hafði starfað hjá HK í fjölmörg ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég tek ákvörðunina að mörgu leyti út frá því að mér finnst vera kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað annað'
'Ég tek ákvörðunina að mörgu leyti út frá því að mér finnst vera kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað annað'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það verður fróðlegt að sjá hvað Ómar gerir næst.
Það verður fróðlegt að sjá hvað Ómar gerir næst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er bara stoltur og þakklátur fyrir tímann hjá HK. Maður er enn að fá skilaboð frá fólki sem maður var að vinna með og hefur kynnst í gegnum félagið," segir Ómar Ingi Guðmundsson sem hætti sem þjálfari HK síðasta þriðjudag.

Ómar Ingi tók við HK í maí fyrir tveimur árum eftir að Brynjar Björn Gunnarsson lét af störfum og fór til Örgryte í Svíþóð. Áður hafði Ómar verið aðstoðarmaður Brynjars og þjálfað yngri flokka HK til margra ára. Hann var í raun bara orðinn 'herra HK' áður en hann ákvað að stíga til hliðar en hann hefur verið leikmaður, þjálfari yngri flokka, aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari meistaraflokks hjá félaginu.

Ómar stýrði HK upp á fyrsta tímabili sínu sem aðalþjálfari og tókst síðan að halda liðinu uppi á síðasta ári. Þetta fótboltasumar var erfitt hjá HK-ingum sem féllu í lokaumferð Bestu deildarinnar eftir 7-0 stórtap gegn KR.

Samningur Ómars var út þetta tímabil og bauð HK honum nýjan samning, en Ómar vildi róa á önnur mið.

„Ég var alls ekki búinn að hugsa þetta lengi," segir Ómar. „Í síðustu viku fór ég aðeins að spá í þessu og svo mikið þegar maður fór að gera upp tímabilið og horfa fram í tímann eftir síðasta leik. Ég hefði örugglega skrifað undir samninginn í byrjun október en svo fór maður að velta þessu fyrir sér, og þá fannst mér eðlilegast að þetta væri niðurstaðan."

En af hverju var þetta niðurstaðan?

„Ég tel mig vera að taka þessa ákvörðun með hagsmuni félagsins og mína eigin að leiðarljósi. Ég sagði það þegar ég tók við liðinu að ég myndi alltaf velta því fyrir mér hvort það væri best ef ég væri við stjórnvölinn. Ég fór að velta þessu fyrir mér núna og hallaðist að því að það væri gott fyrir félagið að fá nýja rödd. Á sama tíma fyrir mig að opna á tækifærið að taka annað skref til þess að þróa mig áfram," segir þjálfarinn.

Tilfinningalega erfitt og krefjandi
Hann tók ákvörðun um að hætta og tjáði stjórn félagsins það. Hann segir að það hafi verið erfiður fundur.

„Sá fundur var tilfinningalega mjög erfiður fyrir mig. Það er erfitt að segja það upphátt hvaða ákvörðun ég væri að taka og tilkynna þeim það," segir Ómar.

„Ákvörðunin kom þeim á óvart og hún kom mér sjálfum á óvart. Það kom mér á óvart að ég færi að velta þessu fyrir mér, ég bjóst ekki við því. Á fundinum vissi ég að ég væri að kveðja félagið og það var tilfinningalega erfitt og krefjandi."

Hann telur HK vera vel í stakk búið að komast aftur upp í Bestu deildina.

„Lokaniðurstaðan er vonbrigði. Það er sama hvort þú ræðir við mig, leikmennina eða stjórnina, við náðum ekki því sem við ætluðum okkur. Það er samt margt sem félagið getur verið stolt af. Við erum ofarlega í mínútufjölda fyrir stráka á 2. flokks aldri og erum að spila á ungu liði. Við veðjuðum ekki á einhverju vitleysu og komum okkur þannig í vond mál."

„Liðið er vel búið að fara upp á næsta ári. Það eru margir ungir leikmenn búnir að fá reynslu og þroskast mikið. Ég held að félagið hafi oft verið í verri málum gagnvart því að komast upp um deild. Það er alltaf vonbrigði að falla en þegar rykið sest og horft er til baka í stærra samhengi fyrir félagið, þá vona ég innilega að þetta tímabil hafi ekki verið til einskis," segir Ómar og bætir við:

„Ég held að félagið sé á mjög góðum stað að gera góða hluti með leikmenn sem eru hjá félaginu, eru í meistaraflokknum núna eða eru nálægt honum. Það er mikið af tækifærum ef vel er haldið á spilunum að búa til hörkulið."

Takast á við nýjar áskoranir og nýjan lærdóm
Hann telur að það verði skrítið að þjálfa ekki í Kórnum í vetur en hann horfir fram á við og vonast til að læra meira í nýju umhverfi.

„Það verður alltaf skrítið," segir Ómar um það að þjálfa ekki meira í Kórnum í bili. „Ég veit alveg sama hvað ég geri, þá mun koma upp einhver eftirsjá yfir ákvörðuninni. Ég get loksins farið með börnunum, konunni og fjölskyldu minni á völlinn. Þetta verður öðruvísi en eitthvað sem ég taldi mig þurfa að prófa."

En hvað næst?

„Ég er opinn fyrir öllu. Ég tek ákvörðunina að mörgu leyti út frá því að mér finnst vera kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað annað. Takast á við aðra stjórn og vera í samtölum við aðra þjálfara. Ég horfi á það. Mig langaði að gefa sjálfum mér tækifæri að komast inn í annað umhverfi þar sem ég get haldið áfram að læra. Ég er búinn að vinna í HK lengi og það er mikið af fólki sem hefur verið þar lengi. Fólk sem ég hef verið í samvinnu við í lengri tíma. Mig langaði að prófa að takast á við nýjar áskoranir og nýjan lærdóm."

Ómar segist nú þegar hafa fengið óformlegar fyrirspurnir en hann tekur því rólega.

„Ég hef fengið óformlegar fyrirspurnir en ég hef tekið ákvörðun um að ýta þeim frá mér þangað til allavega í næstu viku. Til þess að eitthvað annað gerist akkúrat núna, þá þyrfti það að vera yfirnáttúrulega spennandi. Til að ég myndi stökkva strax og taka ákvörðun. Ég sé hvernig markaðurinn lítur út og hvort það sé einhver eftirspurn í næstu viku. Ég geri ekki ráð fyrir að taka ákvörðun strax nema það sé eitthvað sem er ómögulegt að hafna."

„Ég er opinn fyrir öllu. Ég þarf að sjá hvaða tækifæri bjóðast," sagði Ómar Ingi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner