,,Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Framararnir hafa ekki fengið mörg stig og síðan var þetta kveðjuleikur Jóns Guðna þannig að við vissum að þeir myndu mæta brjálaðir til leiks," sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH við Fótbolta.net eftir 2-1 sigur á Fram í kvöld.
,,Ég var mjög sáttur við margt í leik FH liðsins. Menn voru að leggja sig fram. Auðvitað hefði mátt vera betri fótbolti en við verðum að byrja á því að berjast og við gerðum það í dag, þá kemur hitt með."
Heimir breytti sóknarlínu sinni í dag en Matthías Vilhjálmsson var á hægri kantinum og Hannes Þ. Sigurðsson var framarlega á miðjunni fyrir aftan Atla Viðar Björnsson.
,,Mér fannst það virka nokkuð vel. Mér fannst Hannes og Atli Viðar ná vel á köflum og ekki skemmdi fyrir að Atli Viðar skoraði."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.