Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   fim 30. júní 2011 11:00
Óli Stefán Flóventsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þjóðvegur eitt
Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Leikmenn Sindra fagna sigri.
Leikmenn Sindra fagna sigri.
Mynd: Gunnar Stígur Reynisson
Úr leik hjá Sindra.
Úr leik hjá Sindra.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Það er gott að búa í Reykjavík söng Haukur Morthens eitt sinn. Það má vel vera að það hafi verið rétt hjá honum þó svo að ég sé ekki endilega sammála honum. Ég bý núna og hef búið síðustu tæp tvö ár í Höfn á Hornafirði. Hvar er Hornafjörður spyrja sjálfsagt ansi margir sig en Hornafjörður liggur á suðausturhorni Íslands. Þangað eru 442 km frá Reykjavík og á góðum degi ef þið keyrið á 90 km hraða eruð þið um 5 tíma að keyra hingað með einu stoppi.

Eins furðulegt og það kann að hljóma finnst mér eins og þessi sama leið sé töluvert styttri þegar talað er um að fara til Reykjavíkur heldur en þegar á að koma hingað austur. Þannig er það allavega að það koma upp á borð okkar hér á skrifstofu Sindra tugir tilfella í alveg frá yngstu flokkum og uppí meistaraflokka beðnir um frestanir eða jafnvel óskir um að við spilum heimaleik okkar fyrir sunnan og nýta þar með okkar ferð með því að spila tvö leiki á tveimur dögum, því það sé t.d svo dýrt að koma hingað. Ástæður fyrir þessu eru oft á tíðum ótrúlegar og hrein og bein móðgun að skella þeim í andlitið á okkur.

Hjá liði eins og Sindra, þar sem ferðalög í útileiki er aldrei undir þremur tímum aðra leiðina, fer stór biti af peningaköku okkar í ferðakostnað. Leikmenn t.d selja klósettpappír og vinna við löndun hörðum höndum til að hafa uppí ferðakosnað á leiki í Íslandsmóti og frá því að ég kom hingað heyri ég aldrei kvartanir, þetta er bara sjálsagður hluti íþróttatilverunnar hér. Hugsunin að það sé svo erfitt að fara til Reykjavíkur til að spila einn leik og svo strax til baka samdægurs er bara ekki til. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en í dag er þetta ekki vandamál hjá mér. Vandamál Reykjavíkurliða að komast í útileiki felst helst í því hvort vagn 11 eða vagn 7 henti betur og hvað strætómiðinn er dýr í dag.

Á dögunum þurfti ég að skreppa suður í Hveragerði með 2.flokk. Þegar að heim átti að fara varð eldgos (varla fréttnæmt orðið) sem lokaði suðurlandsleiðinni heim. Góð ráð voru því dýr þannig að ákveðið var að keyra norðurleiðina til baka. Á leiðinni á milli Akureyrar og Egilsstaða var svo mikill snjór að leiðin var varla fær og hvatti vegagerðin fólk til að fara ekki. Áfram fórum við þó því að bíllinn var vel dekkjaður en veðrið þarna í lok maí var eins og það gerist verst á köldum janúarmánuði. Þegar að við komum svo að Djúpavogi (heimabæ Halls félagaskiptakóngs Íslands) og klukkutími eftir heim var okkur tjáð að þjóðvegur eitt væri lokaður vegna ofsaveðurs (yfir 40 metra m/s) í Hamarsfirðinum en við létum okkur vaða á skjaldbökuhraða. Á 12 tímum fengum við því að kynnast öllum kröftum náttúrunnar, eldur og ís plús vindar hafsins en það stoppaði okkur Sindramenn ekki og við komumst heilir heim.

Það sem ég er að reyna að ropa út úr mér með þessum hetjusögum er að mér er farið að finnst allt of margir halda það að Ísland sé bara Reykjavík og að þar sé nafli alheimsins. Að fara út fyrir mörk borgarinnar er mörgum bara böl. Ég heyrði á dögunum sögu af drengjum tveimur í 4.flokki úr liði af stór Reykjavíkursvæðinu. Þeir áttu að spila við Sindra á Hornafirði og skilaboð þjálfara voru þannig að það átti að nesta sig vel upp því ferðalagið væri langt. Þegar að komið var framhjá Selfossi fóru þeir að spyrja hvort þeir færu nú ekki að koma til Hornafjarðar þar sem þeir héldu að bærinn væri rétt hjá Þorlákshöfn. Við erum að tala um drengi sem eru á fermingaraldri.

Eftir að ég tók við þjálfun hér hef ég haft opinn huga við að fá unga leikmenn úr liðum í efstu deildum, sem ekki fá mögleika hjá sínu liði, að láni og koma hingað austur yfir sumartímann. Sjálfur gerði ég þetta þegar að ég var 19 ára en ég fór austur á Neskaupstað að spila með Þrótti Nes. Ég bætti mig mikið sem leikmaður og enn í dag bý ég yfir þeirri reynslu sem ég fékk þann tíma sem ég bjó þar. Drengir þroskast sem leikmenn og ekki síður sem persónur. Þeir læra að bjarga sér sjálfir og komast aðeins af hótel mömmu. Jafnvel þyrftu þeir að læra eitthvað annað en að panta pizzu til að borða. Jafnvel þyrftu þeir að læra á þetta apparat sem mamma hendir skítugum fötum í. Jafnvel þurfa þeir að læra að taka á mótlæti auðrvísi en að kvarta í fanginu á mömmu og pabba. Tveir drengir, annar úr Grindavík og hinn frá Húsavík hafa komið og líkað afar vel. Tilviljun að þessir leikmenn séu landsbyggðarmenn? Veit það ekki.

Ég og Eysteinn Húni Hauksson, Héraðsbúi, (oft sagt um þá sem eru frá Egilssöðum. Egilsstaðir er kaupstaður á austurlandi) frændi, stórvinur og núverandi þjálfara Hattar, áttum gott samtal fyrir skömmu um þessi mál. Hann kom með þá snilldarhugmynd að það ætti að setja upp hefð að t.d 5.flokkur taki einhverskonar hringleiki. Þetta væri þannig gert að hringvegurinn yrði tekinn og stoppað væri á þremur til fjórum stöðum til að spila leiki. Heimaliðið mundi sjá um grillveislu og gistiaðstöðu eftir leiki. Um leið yrði landið kynnt fyrir börnunum og þeim kennt hvar hinir og þessir staðir eru t.d Njáluslóðir, jökulsárlónið, Lagafljótið, Möðrudalsöræfi, Mývatn, Snæfellsnes o.s.frv. Þarna værum við að nota knattspyrnuna til að kenna og kynna börnum og jafnvel fullorðnum landið okkar.
Tímabilið 2007 var ég fyrirliði Grindavíkur þegar að liðið var í fyrstu deild. Þetta árið voru óvenju mörg landsbyggðarlið í deildinni, t.d Víkingur Ó, Fjarðabyggð, Þór og KA, ÍBV. Að mínu mati fengu neikvæðir tónar að hljóma of mikið innan okkar herbúða varðandi þetta. Okkur tókst að fá menn til að skilja að það væri í raun forréttindi að fá að heimsækja hina og þessa staði sem við venjulega værum ekki að heimsækja. Þannig var mottó okkar það sumar og enduðum við gríðarlega skemmtilegt tímabil sem meistarar í 1.deild og menn gleyma sjálfsagt seint heimferðinni frá Norfirði eftir síðustu umferðina.

Við búum á landi þar sem náttúrufegurðin er óendanleg. Við búum á landi þar sem söguslóðir eru á hverju horni. Við búum á landi þar sem stutt er í allar áttir. Við búum í landi sem nær út fyrir malbik höfuðborgarinnar.

Þetta er Óli Stefán sem skrifar frá Hornafirði.
banner
banner
banner