„Ég held að ef við náum fyrsta sigrinum fari þetta að rúlla fyrir okkur," segir Garðar Gunnar Ásgeirsson, þjálfari hjá Leikni. Liðið tapaði 4-3 fyrir Fjölni í kvöld og er enn límt í fallsæti.
Leiknir var hársbreidd frá því að fara upp í fyrra en liðið er að leika langt undir væntingum í ár. Hver er skýringin á þessum rosalega mun á spilamennsku liðsins?
„Þetta sýnir bara bersýnilega hvað sjálfstraustið skiptir miklu máli. Við störtuðum vel í fyrra og fengum sjálfstraustið með okkur. Núna byrjum við ekki af sama krafti og hlutirnir ekki fallið fyrir okkur," segir Garðar.
„Þetta er brekka en ég held að við komumst yfir hana. Það er alveg klárt mál að menn verða að girða sig í brók."
„Það er áberandi hvað andstæðingurinn þarf lítið til að skora mörk. Við þurfum hinsvegar að hafa verulega fyrir öllum okkar mörkum," segir Garðar en viðtalið við hann má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.