
Jóhann Björn Sveinbjörnsson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, stýrði liðinu til 3-1 sigurs gegn Grindavík í fjarveru aðalþjálfarans Þorláks Árnasonar, sem er nú með U16 ára landslið Íslands á Norðurlandamótinu. Jóhann var sáttur með sigurinn en sagði spilamennskuna ekki hafa verið neitt sérstaka.
„Grindvíkingar hafa staðið sig vel þó að þær séu á botninum og þetta var erfiður leikur að nálgast. Við vorum ekki upp á okkar besta í dag en við kláruðum þetta og við erum svosum bara sátt með það,“ sagði Jóhann Björn við Fótbolta.net eftir leikinn.
En hvernig fannst Jóhanni að stýra allt í einu liðinu, án Þorláks?
„Sem betur fer hefur maður nú fengið að taka mikinn þátt í öllum undirbúningi og í leiknum sjálfum, þannig að það var svosum ekkert vandamál,“ sagði Jóhann.
Grindavíkurstúlkur fengu undarlega vítaspyrnu í stöðunni 2-1 en Ashley Thompson varði spyrnuna. Það má segja að réttlætinu hafi verið fullnægt því enginn botnaði í þessari ákvörðun dómaranna að dæma víti.
„Ég veit í rauninni ekki á hvað hún var að dæma. En mér sýndist það nú vera línuvörðurinn sem flaggaði, þannig að hann hlýtur að hafa séð eitthvað. En hún var nokkrum andartökum áður búið að sleppa augljósri vítaspyrnu sem við áttum að fá, þannig að þetta leit illa út.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.