Guðjón Baldvinsson framherji KR var að vonum sáttur með 5-1 sigur liðsins gegn ÍF frá Færeyjum í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Guðjón skoraði tvö mörk og átti í heildina góðan leik.
„Þetta var formsatriði og sterkt líka af okkur að klára þetta svona sannfærandi. Það er auðvelt að detta í eitthvað vanmat og fara í eitthvað rugl, en mér fannst við gera þetta vel,“ sagði Guðjón við Fótbolta.net eftir leik.
KR vann 3-1 sigur í Færeyjum og segir Guðjón að það hafi verið sterkt að skora fyrsta markið til að koma í veg fyrir eitthvað stress.
„Segjum að þeir hefðu skorað fyrsta markið eins og í Færeyjum, þá hefði kannski farið smá hrollur um mann, þannig að það var sterkt að klára þetta strax,“ bætti hann við.
Næsti andstæðingur KR-inga er ekki af verri endanum, en það er lið MSK Zilina sem spilaði í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Guðjón gerir sér grein fyrir því að það er erfitt verkefni framundan en er þó bjartsýnn.
„Þetta verður erfitt, en við höfum mætt góðum liðum eins og Basel, ég var reyndar ekki með í því, en við náðum góðum árangri þar. Það er allt hægt í þessum fótbolta, við verðum bara að eiga okkar besta leik.“
Sjálfur segist hann ekki vera sáttur með að hafa skorað „einungis“ tvö mörk í þessum leik, en hann fékk tækifæri til að fullkomna þrennuna.
„Það er gott mál að skora tvö mörk, en guð minn almáttugur hvað ég átti að skora þrennu þarna. Ég hef aldrei verið jafn pirraður eftir að hafa skorað tvö mörk, við getum orðað það þannig,“ sagði Guðjón, en viðtalið í heild sinni má sjá í myndbandinu hér að ofan.