Grétar Sigfinnur Sigurðarson var fyrirliði KR í kvöld í fjarveru Bjarna Guðjónssonar og var hann vissulega svekktur með 4-1 tapið gegn Dinamo Tbilisi í Evrópudeildinni.
„Þetta var draumabyrjun en við áttum bara að skora fleiri, við hefðum átt að komast í 2-0 í byrjun. Það er kannski það sem er mest pirrandi við þetta, að hafa ekki nýtt færin í byrjun. Svo hefðum við getað komist í 2-1 í seinni hálfleik þar sem markvörðurinn hoppar bara fyrir eitthvað á marklínunni, og við fáum sláarskot þegar við erum að reyna,“ sagði Grétar við Fótbolta.net.
„En þetta er samt frábært lið, það er ekkert hægt að setja út á það. Þeir refsuðu okkur bara þegar við vorum að sækja á mörgum mönnum og þeir eru náttúrulega mjög vel æfðir í því að klára færin sín. Mörg af mörkunum þeirra voru bara frábær.“
„Við vissum alveg að þeir myndu spila fallegan bolta og spila honum vel á milli sín, en við sýndum það í byrjun að við vorum búnir að lesa þá og nýttum okkur það að ná þessum glufum inn. En þetta féll ekki fyrir okkur í dag, þetta hefur verið að falla fyrir okkur stundum og með smá heppni hefði það getað gerst, en þeir gengu á lagið.“
Magnús Már Lúðvíksson og Bjarni Guðjónsson voru báðir á varamannabekk KR í kvöld en Grétar vill ekki meina að það hafi átt að breyta neinu þó að vissulega sé um sterka leikmenn að ræða.
„Það munar alltaf um sterka leikmenn en það á samt ekki að skipta einu einasta máli. Við erum búnir að vera að gera eina til tvær breytingar í hverjum einasta leik og erum með stóran hóp. Maggi var ekki í byrjunarliðinu í öllum fyrstu leikjunum, en auðvitað eru þetta sterku leikmenn. En við eigum samt að geta leyst þetta og ég held að það hafi ekki skipt öllu máli.“
Viðtalið við Grétar má sjá í heild sinni hér að ofan.