,,Mér fannst bæði lið ekki ná upp almennilegu spili í leiknum og í raun og veru var þetta lélegur leikur heilt yfir. Við héldum okkar varnarleik allan tímann og unnum þrjú stig á því," sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA eftir 1-0 sigur liðsins á Fylki í kvöld.
Lestu um leikinn: Fylkir 0 - 1 ÍA
Árni Snær Ólafsson kom inn á sem varamaður og varði vítaspyrnu áður en annar varamaður Ólafur Valur Valdimarsson skoraði sigurmarkið.
,,Við erum með fínan bekk og mikla samkeppni í liðinu. Árni Snær er flottur markvörður sem hefur verið að berja á dyrnar í U21 árs landsliðinu. Þetta er strákur með mikla hæfileika, hann er í raun ekkert mikið síðri markvörður en Palli. Óli Valur er mjög efnilegur strákur og hann sýndi að hann á skilið sæti í liðinu eins og aðrir."
Páll Gísli fór meiddur af leikvelli í kvöld en Þórður telur að meiðslin séu ekki alvarleg. ,,Nei ég held ekki. Hann fékk högg inn á lærið undir lok leiks gegn KR þegar það blæddi inn á lærið á honum. Við héldum að það væri í lagi en það er greinilega ekki komið í lag."
Skagamenn mæta Keflvíkingum á sunnudag og þar ætla þeir að reyna að halda áfram á sömu braut.
,,Þetta er bara stríð og bardagi hver einasti leikur. Við horfum á alla leiki sem úrslitaleiki og næsti úrslitaleikur er á sunnudaginn gegn Keflavík," segir Þórður sem hefur ekki áhyggjur af því að það verði erfitt að halda sínum mönnum niðri á jörðinni.
,,Við vitum hvað þarf á skaganum til að vinna titla og við förum í hvern leik til að vinna og sjáum hvert það leiðir okkur."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir