Ísland hefur nú leikið tvo fyrstu leiki sína í undankeppni HM. Fótbolti.net fékk íþróttafréttamanninn Hörð Magnússon til að rýna í landsliðið eftir þessa fyrstu leiki og þá aðallega leikinn gegn Kýpur í gær.
„Leikurinn var mikil vonbrigði frá A til Ö. Þetta var slakur leikur af hálfu Íslands og mikil vonbrigði," sagði Hörður.
„Miðjuspilið fannst mér mjög dapurt. Vörnin stóð sig ágætlega þó vinstri vængurinn hafi verið tæpur. Það kom minna út úr framlínumönnunum en maður hafði vonast eftir. Ég veit ekki hvort menn hafi ofmetnast eftir Noregsleikinn."
Hörður segist þó sjá margt jákvætt í uppbyggingu.
„Lars Lagerback er að reyna að búa til liðsheild og mér finnst það vera góð tilbreyting frá fyrri landsliðum."
„Okkur vantar klárlega sterkari miðjumann með Aroni (Einar Gunnarssyni), mann sem getur haldið boltanum betur. Sá maður er kannski ekki til. Við eigum engan Rúnar Kristins, mann sem getur haldið boltanum lengi og vel, valið sendingar og dreift spilinu. Við þurfum eiginlega að bíða eftir þeim leikmanni," sagði Hörður.
Vill sjá meira frá Gylfa
„Við söknum Kolbeins (Sigþórssonar) sem er að mínu mati besti leikmaður liðsins og svo vill maður sjá meira frá Gylfa (Sigurðssyni). Rúrik Gíslason var ekki að finna sig í þessum tveimur leikjum og mér finnst hann þurfa að sanna sig meira til að vera byrjunarliðsmaður í íslenska landsliðinu. Mér finnst hann ekki hafa staðið undir væntingum."
Hörður telur að Íslendingar eigi betri kosti í vinstri bakvarðarstöðuna en þá sem hafi leikið í þessum tveimur leikjum.
„Að mínu mati er Hjörtur Logi Valgarðsson besti vinstri bakvörður sem við eigum. Hann hefur kannski gengið í gegnum erfiða tíma hjá Gautaborg en furðulegt að hann hafi ekki verið valinn í þessa leiki. Svo finnst mér vinstri bakvörður númer tvö vera Kristinn Jónsson hjá Breiðabliki. Þetta er náttúrulega bara mitt mat."
Þetta unga lið lærir vonandi af tapinu
Hörður segir að það yrði mjög góður árangur að enda í 3. - 4. sæti riðilsins og segir sigurinn gegn Noregi sýna að það sé hægt að gera ýmislegt.
„Við erum með þessi þrjú stig. Riðillinn er jafn og við verðum að búa til góða heimavallarstemningu. Menn þurfa ekki að fara á aðra hliðina þó við höfum tapað þessum leik í gær. Það er fullt af leikjum eftir. Ég vona að menn læri þó af tapinu og komi einbeittari til leiks og meira á tánum því það eru erfiðir leikir framundan. Þetta unga lið lærir vonandi af þessu tapi á Kýpur," sagði Hörður Magnússon.
Viðtalið við hann má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir