Gunnleifur Gunnleifsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Breiðablik. Gunnleifur hefur undanfarin ár varið mark FH.
„Þetta var ekkert í spilunum, ég ræddi við FH-inga fyrst þegar tímabilinu var að ljúka. Það var meiningin að ég yrði áfram þar. Þegar þær samningaviðræður sigldu í strand kom þetta upp og Blikar buðu mér að koma hingað yfir," segir Gunnleifur.
Gunnleifur er uppalinn HK-ingur og mörgum þótt það óhugsandi að hann myndi einn daginn leika fyrir Breiðablik.
„Menn þroskast í þessu, menn hafa sagt ýmislegt í gegnum tíðina en það eru breyttir tímar."
„Þeir sem ég hef talað við varðandi þetta mál skilja mig mjög vel. Þetta er gott skref fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er virkilega ánægður með að þeir líta svo á að ég eigi nokkur ár eftir í þessu. Það er einmitt það sem mér finnst. Ég er í landsliðshóp og ætla að vera áfram,"
Blikar stefna hátt og ætla að verða Íslandsmeistarar á næsta ári. Er ekki furðuleg tilhugsun að berjast við FH um titilinn á næsta ári?
„Ég veit að FH verður í baráttunni næstu árin um titilinn og ég vil að Breiðablik verði það líka. Ég vil taka það samt fram að ég er þakklátur öllum FH-ingum fyrir minn tíma hjá FH."
Gunnleifur er með HK-tattú.
„Ég skammast mín ekkert fyrir að vera með HK-tattú. Ég er uppalinn HK-ingur og þykir vænt um félagið. Ég myndi frekar vilja fela tattúið með hauskúpunni með kúluhattinn," sagði Gunnleifur kíminn.
Athugasemdir