Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fim 14. apríl 2016 13:00
Þórður Már Sigfússon
Styrkjakerfi UEFA gæti fjármagnað hluta nýs leikvangs
Fótbolti.net heldur áfram umfjöllun um stöðu Laugardalsvallar
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tölvuteiknuð mynd af hugsanlegu útliti Laugardalsvallarins í framtíðinni.
Tölvuteiknuð mynd af hugsanlegu útliti Laugardalsvallarins í framtíðinni.
Mynd: KSÍ
UEFA knattspyrnusambandið úthlutar miklum fjármunum til aðildarsambandanna.
UEFA knattspyrnusambandið úthlutar miklum fjármunum til aðildarsambandanna.
Mynd: Getty Images
KSÍ setti upp ný flóðljós á Laugardalsvelli í boði UEFA.
KSÍ setti upp ný flóðljós á Laugardalsvelli í boði UEFA.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Einn af þeim kostum sem KSÍ gæti staðið til boða við hugsanlega uppbyggingu Laugardalsvallar er hið svokallaða HatTrick styrkjakerfi UEFA.

Um er að ræða digran sjóð sem öllum aðildarsamböndum UEFA er heimilt að sækja í. Kerfið er hlutaskipt og er gildistíminn fjögur ár í senn en upphaf hvers tímabils miðast við lokakeppni Evrópumóta. Ástæðan er sú að styrkjakerfið, sem var sett á laggirnar í lok árs 2003, er eingöngu fjármagnað með tekjum af lokakeppnunum.

Frá stofnun þess hefur styrkjakerfið lokið þremur gildistímabilum; HatTrick I, II og III. Velta kerfisins hefur aukist ár frá ári og samkvæmt árskýrslu UEFA er búist við því að næsta gildistímabil sem hefst í ár og gildir til ársins 2020, HatTrick IV, muni geta fjármagnað ýmis verkefni aðildarsambanda UEFA fyrir samtals 600 milljónir evra eða rúma 85 milljarða íslenskra króna.

Fram til þessa hefur hlutur uppbyggingar á leikvöngum numið um 25 – 30% af heildarupphæðinni en það samsvarar um 25,5 milljörðum króna á næsta gildistímabili.

Fótbolti.net sendi fyrirspurnir til UEFA um úthlutun styrkjakerfisins en þar kom fram að öll aðildarsamböndin njóta jafns hlutar, hvort sem um sé að ræða stór og gróskumikil sambönd eða smá og félítil aðildarsambönd.

Hins vegar geta þjóðir fengið stærri úthlutun úr sjóðnum með því að sameina gildistímabil. „Til að fá stærri fjárhæð til umráða fyrir ákveðið verkefni bregða sum knattspyrnusambönd á það ráð að sameina tvö HatTrick tímabil undir einn hatt, t.a.m. HatTrick II og HatTrick III,” segir í svari UEFA við fyrirspurn Fótbolti.net.

Yfirlit yfir HatTrick styrkjakerfið
HatTrick I (2004 – 2008): 163 fjárfestingarverkefni samþykkt. 82% þessara verkefna nutu aukafjármögnunar annarsstaðar frá. Sjóður: 301,6 milljón evra (42,5 milljarður króna). 25% þess fjármagns sem notað var úr sjóðnum fór í verkefni tengdum leikvöngum eða um 10,6 milljarður króna.

HatTrick II (2008 – 2012): 171 fjárfestingarverkefni samþykkt. 86% með aukafjármögnun. Sjóður: 408,1 milljón evra (57,5 milljarður króna). 28% lutu að leikvöngum eða 16,1 milljarður íslenkra króna í leikvanga

HatTrick III (2012 – 2016): Ársgreiðslur til hvers aðildarsambands námu allt að 1,6 milljón evra sem samsvarar um rúmum 243 milljónum íslenskra króna. Auk þess gat hvert aðildarsamband beðið um auka þrjár milljónir evra í einstök verkefni á þessu tímabili. Þau verða þó að fá samþykki nefndar á vegum UEFA.

HatTrick IV (2016-2020): Hin 54 aðildarsambönd UEFA munu fá til afnota sjóð upp á rúmar 600 milljónir evra eða rúma 85 milljarða króna.

Eins og yfirlitið sýnir fjármagnar styrkjakerfið sjaldan einstök verkefni að fullu en það gerist í um 16 - 18% tilvika og er þá um að ræða nokkuð kostnaðarlítil verkefni. Í langflestum tilvikum er það notað sem aukafjármögnun fyrir stærri verkefni.

Frá því að HatTrick styrkjakerfið var stofnsett hafa allar aðildarþjóðar UEFA sótt um styrki í sjóði þess. Það liggur þó í hlutarins eðli að stærstu knattspyrnuþjóðirnar leita mun sjaldnar í það en efnaminnstu samböndin. Kerfið er því gríðarlega mikilvægt fyrir smærri knattspyrnusambönd eins og KSÍ.

KSÍ þróar innviði knattspyrnunnar hér á landi
Fram kemur í yfirlitsskýrslu HatTrick styrkjakerfisins fyrir tímabilið 2004 – 2014 að markmið KSÍ sé að nýta styrkjakerfið til að byggja upp og þróa innviði knattspyrnunnar á Íslandi. Fyrir tilstuðlan kerfisins voru t.a.m. 111 boltavellir settir upp víðsvegar um landið auk þess sem mannvirkjasjóður var settur á fót árið 2008 en sá sjóður hefur þegar veitt um yfir 100 milljónir króna til ýmissa verkefna.

Ekki kemur fram í skýrslunni hvort KSÍ hafi leitað til UEFA og HatTrick styrkjakerfisins þegar ráðist var í endurbætur Laugardalsvallar um miðjan síðasta áratug en fram kemur í greinargerð KSÍ frá 2007 að það hafi verið gert. Um er að ræða skrifstofubygginguna sem var fjármögnuð af KSÍ, HatTrick styrkjakerfis UEFA og Goal styrkjakerfi FIFA.

Þá fékk KSÍ um 150 milljóna styrk frá UEFA til að skipta um flóðljósabúnað á Laugardalsvelli í fyrra auk þess sem liggur fyrir styrkur sem á að fara í nýtt upphitað undirlag vallarins.

Eystrasaltslöndin sækja styrki
Fótbolti.net leitaði upplýsinga um það hvaða þjóðir hafa fengið úthlutaða styrki fyrir uppbyggingu á þjóðarleikvöngum á síðustu árum. Þar kom í ljós að Eystrasaltslöndin eru dugleg að sækja þangað fjármagn en knattspyrnusamband Lettlands hefur t.a.m. fengið vilyrði frá UEFA fyrir rúmum 850 milljónum króna til byggingar nýs þjóðarleikvangs. Þess má geta að núverandi þjóðarleikvangur Letta var tekinn í notkun árið 2000.

Þá hafa Eistland og Litháen einnig fengið vilyrði fyrir framtíðarstyrk við uppbygginu á þjóðarleikvöngum landanna. Eistar ætla að stækka sinn glæsilega leikvang um helming og þá er í burðarliðnum að byggja glænýjan þjóðarleikvang í Litháen.

HatTrick styrkjakerfið mun síðan leggja til rúmar 300 milljónir króna til byggingar nýs þjóðarleikvangs í smáríkinu Gíbraltar en búast má við því að sú fjárhæð muni hækka enda er gert ráð fyrir því framkvæmdir muni kosta um fimm og hálfan milljarð króna.

Írland og Andorra fengu rúmar 500 milljónir króna hver þjóð við uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga auk N-Írlands sem naut góðs af við enduruppbyggingu Windsor Park.

Önnur lönd sem hafa nýtt sér styrkjakerfið í uppbyggingu leikvanga eru t.a.m Makedónia en styrkur upp á 800 þúsund evrur fór í endurbætur Pod Tumbe Kade leikvangsins. UEFA lagði auk þess til um 2,5 milljónir evra í endurgerð Propads leikvangsins í Slóvakíu og þá nýttist styrkjakerfið vel í byggingu tveggja leikvanga í Aserbaijan.

Fótbolti.net heldur umfjölluninni um Laugardalsvöll áfram á morgun og einblínir betur á styrkjakerfi UEFA og þá staðreynd að sambandið vill að aðildarsambönd eigi meirihluta í þjóðarleikvöngum.
Athugasemdir
banner
banner
banner