Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   þri 12. apríl 2016 14:15
Þórður Már Sigfússon
Uppselt á alla heimaleiki Austurríkis; nýr leikvangur í bígerð
David Alaba og félagar í austurríska landsliðinu leika á nýjum heimavelli innan fárra ára.
David Alaba og félagar í austurríska landsliðinu leika á nýjum heimavelli innan fárra ára.
Mynd: Getty Images
Austurríska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að bregðast við sívaxandi áhuga stuðningsmanna á landsliðinu með því að undirbúa byggingu nýs þjóðarleikvangs.

Austurríska landsliðið er gríðarlega sterkt um þessar mundir og fór m.a. taplaust í gegnum undankeppni EM. Leopold Windtner, forseti austuríska knattspyrnusambandsins, segir það ótækt hversu margir stuðningsmenn hafi þurft frá að hverfa, miðalausir á heimaleikjum.

„Það er ljóst að við þurfum stærri leikvang í ljósi þeirra áhorfendatalna sem við sáum í undankeppninni,” sagði Windtner í samtali við World Football.

„Það er ótrúlegt en við hefðum getað selt 70 þúsund miða á leikinn gegn Liechtenstein en margir urðu fyrir vongbrigðum þar sem við gátum einungis selt um 50 þúsund miða.”

Dagblaðið Wiener Zeitung fullyrðir að bygging nýs leikvang muni kosta að minnsta kosti 20 milljarða króna.

Núverandi þjóðarleikvangur austurríkis í knattspyrnu er Ernst-Happel-Stadion. Hann var tekinn í notkun árið 1931 og tekur 50 þúsund manns í sæti.

Austurríki er önnur þjóðin sem hyggur á stækkun þjóðarleikvangsins vegna aukinnar eftirspurnar eftir miðum á landsleiki en knattspyrnusamband Eistlands hyggur einnig á framkvæmdir.

Stjórnvöld þar í landi undirrituðu síðastliðið haust samkomulag um stækkun þjóðarleikvangsins í Tallinn um helming vegna mikils áhuga stuðningsmanna þegar stórþjóðir koma í heimsókn.

Íslendingar eru í svipaðri stöðu og þessar tvær þjóðir en Laugardalsvöllur er fyrir löngu orðinn of lítill fyrir landsliðsþyrsta stuðningsmenn. Hins vegar ríkir mikil óvissa um framtíðaruppbyggingu leikvangsins en svo gæti farið að KSÍ kaupi leikvanginn af Reykjavíkurborg.

Í úttekt sem Fótbolti.net gerði í apríl á síðasta ári kom í ljós að nýting sæta á Laugardalsvellinum í undankeppni HM 2014 og EM 2016 er sú besta í Evrópu eða 94%. Sú prósentutala hækkaði upp í rúm 97% eftir landsleikjahrinu síðastliðins hausts.

Til samanburðar var sætanýting á heimaleikjum Austurríkis um 86,4% yfir sama tímabil og 75,4% hjá Eistlandi.

Fótbolti.net mun á næstu dögum fjalla stuttlega um framtíðarhorfur Laugardalsvallarins og velta fyrir sér þeim möguleikum sem eru uppi í stöðunni.
Athugasemdir
banner