fim 15. ágúst 2019 12:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hemmi Hreiðars: Það hefði verið gaman að fylgja þessu eftir
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann og Sol Campbell saman í leik með Portsmouth.
Hermann og Sol Campbell saman í leik með Portsmouth.
Mynd: Getty Images
Sol Campbell.
Sol Campbell.
Mynd: Getty Images
Hermann Hreiðarsson, sem var á sínum tíma lykilmaður í vörn íslenska landsliðsins, hætti í dag sem aðstoðarþjálfari Macclesfield í ensku D-deildinni.

Í sumar tók Hermann til starfa hjá Macclesfield sem aðstoðarþjálfari Sol Campbell. Hann og Campbell, sem var á sínum tíma lykilmaður í vörn enska landsliðsins, þekkjast vel eftir að þeir spiluðu saman hjá Portsmouth frá 2007 til 2009.

Hermann hefur verið með Macclesfield á hverri æfingu og í hverjum leik síðustu vikurnar.

Það er mikil óvissa í kringum Macclesfield vegna fjárhagsvandræða og ákváðu þeir félagar að stíga frá borði í dag.

„Við gengum bara út núna," segir Hermann í samtali við Fótbolta.net.

„Það voru peningavandræði eða hvernig sem á það er litið á síðasta tímabili. Það var búið að lofa að breyta því, en það breyttist kannski í mánuð. Svo hefur þetta fylgt okkur í gegnum undirbúningstímabilið og inn í tímabilið. Það bindur svolítið hendurnar á mönnum í því sem þarf að gera."

„Þetta er synd því það var búið að leggja mikla vinnu í að púsla saman góðum hóp. Það hefði verið gaman að fylgja því eftir. Það er aðallega synd með strákana. Þetta er ungt lið og það hefði verið skemmtilegt að geta fylgt þessu eftir. En þá hefði mikið þurft að breytast."

„Þetta var mikið púsluspil og mikið af leikmönnum sem fóru. En þetta var líka ótrúlega gaman og maður hefur núna fengið smjörþefinn af þessu," segir Hermann sem var í fyrsta sinn að þjálfa á Englandi eftir að hafa leikið þar í góð 15 ár sem leikmaður.

Hermann hefur á þjálfaraferli sínum þjálfað ÍBV, Fylki, kvennalið Fylkis og þá var hann aðstoðarþjálfari annars fyrrum liðsfélaga, David James, hjá Kerala Blasters í Indlandi í fyrra.

Bjartir tímar framundan
Það eru jákvæðir tímar framundan hjá Hermanni, en hann útilokar ekki að vinna aftur með vini sínum Sol Campbell í framtíðinni.

„Við náum hrikalega vel saman. Við eigum eftir að skoða það aftur að vinna saman í framtíðinni," sagði Hermann, en hann á von á barni með kærustu sinni.

„Það er alltaf eitthvað jákvætt. Maður fékk gott tækifæri og svo á maður von á barni fljótlega. Maður getur hlakkað til þess og það eru bjartir tímar framundan - mjög svo."

Fyrsta þjálfarabreytingin í efstu fjórum deildum Englands
Campbell bjargaði Macclesfield frá falli úr ensku D-deildinni í fyrra en hann fékk á endanum nóg af fjárhagsvandræðum félagsins.

Macclesfield hefur byrjað þetta tímabil nokkuð vel. Unnið einn leik og tapað einum í deildinni og slegið Blackpool, sem er í deild fyrir ofan, úr leik í deildabikarnum eftir vítaspyrnukeppni.

Þetta er fyrsta þjálfarabreytingin í efstu fjórum deildum Englands á þessu tímabili.

Sjá einnig:
Miðjan - Skemmtilegur ferill Hemma Hreiðars


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner