Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 22. maí 2007 11:52
Magnús Már Einarsson
Landsbankad.: - Leikmaður 2.umferðar - Bjarni Þórður (Víkingur)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net mun í sumar velja leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Annarri umferðinni í Landsbankadeild karla lauk í gær og Bjarni Þórður Halldórsson er leikmaður umferðarinnar á Fótbolti.net. Bjarni varði frábærlega í 2-0 sigri Víkings á Fram á Laugardalsvellinum á sunnudaginn og bjargaði liði sínu oft á tíðum.

Bjarni Þórður Halldórsson
Markvörðurinn Bjarni Þórður Halldórsson er í láni hjá Víkingi frá Fylki. Bjarni er uppalinn Fylkismaður en hann á 40 leiki að baki í efstu deild. Bjarni sem er 23 ára hefur leikið átta leiki með U-21 ára landsliði Íslendinga.
Bjarni Þórður segir það koma sér á óvart að vera valinn leikmaður umferðarinnar.

,,Já það gerir það. Hinn markvörðurinn í Fram (Hannes Þór Halldórsson) stóð sig líka vel, varði víti og svona þannig að hann hefði kannski líka átt þetta skilið," sagði Bjarni við Fótbolti.net.

Bjarni varði einnig vel gegn HK í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar en hann er ekki klár á því hvort að leikurinn gegn Fram hafi verið sá besti með Víkingi síðan hann kom til liðsins í vetur.

,,Ég veit það ekki, þetta var ágætur leikur. Allt liðið er búið að spila mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum og halda hreinu. Við erum búnir að standa okkur ágætlega og vonandi heldur það áfram. Hvort þetta hafi verið minn besti leikur, ég veit það ekki," sagði Bjarni sem kann vel við sig hjá Víkingi.

,,Mjög vel, ég er sáttur með félagana og sáttur með þjálfarann. Ég er sáttur með aðstöðuna núna, við vorum út um allan bæ í vetur en núna erum við komnir í Víkinga og það er staðið mjög vel að öllu. Þetta er flottur klúbbur."

Bjarni gerði nokkur mistök á undirbúningstímabilinu en hann hefur byrjað undirbúningstímabilið frábærlega. Hann segir ekkert sérstakt hafa breyst.

,,Það gerðist ekki neitt. Mér fannst ég standa mig vel á undirbúningstímabilinu. Það voru kannski ein og ein mistök en ég hafði ekki spilað í eitt ár þannig að þetta kemur bara."

Verður í miðri stúkunni og vonar að það fari 0-0

Á fimmtudagskvöldið mætast Víkingur og Fylkir en Bjarni Þórður má ekki spila þann leik vegna ákvæðis sem er í lánssamningnum.

Aðspurður hvort það sé ekki svekkjandi að fá ekki að spila þennan leik sagði Bjarni: Bæði og, mig langar að spila en mig langar samt ekki að spila gegn Fylki, það yrði svolítið skrýtin tilfinning. Ég planta mér bara í miðjuna á stúkunni og vona að það fari 0-0," sagði Bjarni en hann vill enginn mörk í leikinn.

,,Það verður að halda 0-recordinu. Við ætlum að halda hreinu í átján leikjum í röð og bæta Íslandsmetið."

Víkingar hafa krækt í fjögur stig í fyrstu tveimur leikjum sínum í Landsbankadeildinni en hvert skyldi vera markmið liðsins í sumar?

,,Eins og Leifur Garðarsson þjálfari Fylkis segir þá ætlum við að vinna alla heimaleiki og gera jafntefli á útivöllum. Þá fáum við 36 stig og þá verðum við Íslandsmeistarar."

,,Án alls gríns þá held ég að stefnan hjá Víkingi sé að gera betur en í fyrra og tryggja sæti sitt í efstu deild. Þeir héldu sér uppi í fyrra og við ætlum að festa okkur í sessi sem eitt af betri úrvalsdeildarliðunum."


Bjarni Þórður er í láni út sumarið en eftir sumarið býst hann við að fara aftur í Fylki. ,,Þá á ég ár eftir af samningi mínum við Fylki og ég reikna bara með að fara þangað."

Að lokum vildi Bjarni koma á framfæri þökkum til Egils Atlasonar fyrir að hafa skorað gegn Frömurum en Egill fór fögrum orðum um Bjarna eftir leikinn í viðtali á Fótbolti.net.

,,Ég vil skila ástarkveðju til Egils Atlasonar og þakka honum persónulega fyrir að skora," sagði Bjarni Þórður glaðbeittur að lokum við Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner