„Við ætluðum að vinna þennan leik. Við viljum fara á móti Víkingum og pakka þeim saman. Það var það sem við ætluðum að gera og mér fannst við gera það," sagði Benoný Breki Andrésson, sóknarmaður KR, eftir sigur gegn Víkingum í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 - 6 KR
KR er Reykjavíkurmeistari og er Benoný ánægður með það hvernig gekk upp í þessu móti.
„En svo er þetta bara undirbúningstímabil og við erum að vinna okkur upp fyrir deildina," bætti hann við.
Benoný var mjög öflugur með KR síðasta sumar og var nálægt því að ganga í raðir Gautaborgar í Svíþjóð eftir tímabilið, en að lokum varð ekkert af því.
„Ég er hættur að hugsa um þetta. Bara áfram gakk. Ég get ekki beðið eftir því að taka annað tímabil með KR og ég elska að vera hérna," segir Benoný.
„Eins og maður segir á góðri ensku, þá snerist þetta um 'personal terms'. Ég get ekki farið í smáatriði en þetta var ekki málið. Fyrst var þetta pínu svekkjandi en svo er ég ekkert búinn að hugsa um þetta meira."
Benoný kveðst vera einbeittur á KR en hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir