Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   sun 01. mars 2020 18:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski deildabikarinn: Man City meistari þriðja árið í röð
Aston Villa 1 - 2 Manchester City
0-1 Sergio Aguero ('20 )
0-2 Rodri Hernandez ('30 )
1-2 Mbwana Samata ('41 )

Manchester City er sigurvegari í deildabikarnum þriðja árið í röð. City hafði betur gegn Aston Villa í úrslitaleiknum á Wembley í London.

Pep Guardiola, stjóri Man City, byrjaði með lykilmennina Kevin de Bruyne og Bernardo Silva á bekknum. Táningurinn Phil Foden fékk tækifæri og var Claudio Bravo í markinu.

Englandsmeistararnir brutu ísinn á 20. mínútu þegar Sergio Aguero skoraði. Hann kláraði vel eftir sendingu frá áðurnefndum Foden. Tíu mínútum síðar komst City svo í 2-0 er Rodri skoraði eftir hornspyrnu sem átti ekki að vera hornspyrnu.

Svekkjandi fyrir Villa, sem er í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni. Villa gafst hins vegar ekki upp og minnkaði Mbwana Samata, sem kom til félagsins í janúar, muninn þegar lítið var eftir af fyrri hálfleiknum. Markið kom eftir rosaleg mistök hjá John Stones, varnarmanni City. Mikilvægt var fyrir Villa að fá mark á þessum tímapunkti.

City var með yfirburði í leiknum, en Villa var alltaf inn í leiknum í stöðunni 2-1. Undir lok leiksins komst Aston Villa nálægt því að jafna þegar Björn Engels átti skalla sem Bravo varði frábærlega í stöngina. Þar við sat og lokatölurnar 2-1 fyrir Manchester City sem heldur deildabikarmeistaratitlinum.

Þetta er í sjöunda sinn sem City vinnur keppnina og er liðið núna einum bikar frá því að jafna met Liverpool.

Nú þarf Aston Villa að einbeita sér að úrvalsdeildinni þar sem liðið er í harðri fallbaráttu. Man City er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 22 stigum á eftir Liverpool, en liðið er í góðri stöðu í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid.


Athugasemdir
banner