Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   sun 01. mars 2020 19:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
PAOK nú sjö stigum frá toppnum - Kjartan og Aron í sigurliðum
Sverrir er leikmaður PAOK.
Sverrir er leikmaður PAOK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar ónotaður varamaður hjá FCK.
Ragnar ónotaður varamaður hjá FCK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Ingi Ingason og félagar hans í gríska félaginu PAOK eru að missa af meistaratitlinum þar í landi. Liðið tapaði mikilvægum stigum á útivelli gegn Xanthi í dag.

Sverrir Ingi lék allan leikinn í vörninni hjá PAOK. Chuba Akpom, fyrrum leikmaður Arsenal, kom PAOK yfir eftir aðeins fjórar mínútur, en stundarfjórðungi síðar jöfnuðu heimamenn í Xanthi.

PAOK, sem er ríkjandi meistari, tapaði gegn Olympiakos í síðustu umferð og er núna sjö stigum á eftir þeim. Núna verður deildinni skipt í tvennt, sex efstu liðin berjast um meistaratitilinn og Evrópusæti á meðan átta liðin í neðri helmingnum berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

PAOK og Olympiakos munu mætast innbyrðis tvisvar á næstunni og þurfa Sverrir Ingi og félagar helst að taka tvo sigra.

Ögmundur Kristinsson skrifaði undir nýjan samning við Larissa í síðustu viku og hann var í marki liðsins í 3-0 sigri á Asteras Tripolis. Larissa er í áttunda sæti og mun ekki berjast um Evrópusæti.

Ónotaðir varnarmenn
Í dönsku úrvalsdeildinni voru landsliðsmennirnir og varnarmennirnir Ragnar Sigurðsson og Hjörtur Hermannsson báðir ónotaðir varamenn hjá sínum liðum.

Ragnar kom ekki við sögu hjá FC Kaupmannahöfn er liðið lagði AaB að velli, 3-2. FCK er í öðru sæti, sex stigum á eftir Midtjylland sem á leik til góða.

Þá kom Hjörtur ekki við sögu hjá Bröndby í 1-0 sigri á Lyngby. Frederik Schram er varamarkvörður Lyngby. Bröndby er í fjórða sæti og Lyngby í áttunda sæti.

Í dönsku B-deildinni var Kjartan Henry Finnbogason í byrjunarliði Vejle sem vann 1-0 sigur á HB/Koge. Vejle er með sex stiga forystu á toppi B-deildarinnar.

Aron spilaði en Arnór og Kolbeinn voru frá
Í bikarkeppni karla í Svíþjóð lék Aron Jóhannsson 81 mínútu með Hammarby í 2-0 útisigri á Brommapojkarna. Aron skoraði tvö og opnaði markareikning sinn fyrir Hammarby í 4-0 sigri á Varberg í fyrsta leiknum í bikarnum.

Hammarby hefur núna unnið báða leiki sína í bikarkeppninni og er í góðum málum hvað það varðar að komast upp úr riðli sínum og í 8-liða úrslitin.

Landsliðsmennirnir Arnór Ingvi Traustason og Kolbeinn Sigþórsson voru ekki með í dag vegna meiðsla. Lið Arnórs, Malmö, vann 2-1 útisigur á Karlskrona og lið Kolbeins, AIK, vann 1-0 útisgur á Örgryte.
Athugasemdir
banner
banner
banner