
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs. var svekktur eftir tap sinna manna gegn Fram í framlengdum leik á Húsavíkurvelli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
„Það er náttúrulega bara svekkelsi og vonbrigði. Mér fannst þetta ekki vera sanngjörn úrslit og þetta er bara grimm íþrótt sem refsar og lið eins og Fram geta refsað ef þú ert ekki alltaf á tánum," sagði Jóhann í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Mér fannst við vera með þetta þó að þeir hafi átt sín færi líka þá fannst mér úrslitin hafa átt að falla með okkur í þessum leik."
Jóhann Kristinn er spenntur fyrir sumrinu á Húsavík en þeir fá Aftureldingu í heimsókn næstkomandi laugardag.
„Já, við erum mjög spenntir hér. Menn hafa undirbúið sig vel og liðið lítur bara betur og betur út hjá okkur. Það hefði verið gaman að fara áfram í bikarnum en það þýðir ekkert að tala um það núna."
„Þegar við erum búnir að sleikja sárin aðeins erum við komnir í fasa að hugsa um laugardaginn og þá fáum við Aftureldingu í heimsókn. Þeir eru ekki auðveldir viðureignar, þeir koma særðir eftir síðasta leik þar sem við fórum með titilinn heim úr Mosfellsbænum í Lengjubikarnum. Þeir ætla sér nú aldeilis að hefna fyrir það. Við þurfum að vera á tánum hér á laugardaginn næsta, það er alveg á hreinu."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan en þar ræðir Jóhann betur um leikmannahóp Völsungs.
Sjá einnig:
Spá fyrirliða og þjálfara í 2. deild karla: 4. sæti
Athugasemdir