Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 01. júlí 2022 22:11
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Sigur í fyrsta leik Sigga Víðis - Björn og Grímur léku sér að Vestra
Björn Axel skoraði tvö og lagði upp eitt
Björn Axel skoraði tvö og lagði upp eitt
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sigurður Víðisson byrjar á sigri
Sigurður Víðisson byrjar á sigri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri 2 - 4 KV
0-1 Björn Axel Guðjónsson ('12 )
0-2 Björn Axel Guðjónsson ('41 )
0-3 Grímur Ingi Jakobsson ('53 )
0-4 Grímur Ingi Jakobsson ('61 )
1-4 Deniz Yaldir ('63 )
2-4 Pétur Bjarnason ('67 )
Rautt spjald: Vladimir Tufegdzic, Vestri ('81) Lestu um leikinn

Sigurður Víðisson, nýr þjálfari KV, fer vel af stað með liðið en það vann góðan 4-2 sigur á Vestra á Ísafirði í Lengjudeild karla í kvöld.

Björn Axel Guðjónsson tók forystuna fyrir KV á 12. mínútu. Pétur Bjarnason átti slaka sendingu á miðjum velli og nýttu gestirnir sér það með því að þruma boltanum upp vinstri vænginn á Björn, sem kom sér í góða skotstöðu og lét vaða í nærhornið.

Hann gerði svo annað mark sitt undir lok fyrri hálfleiksins eftir vel útfærða hornspyrnu. Þeir tóku það á Njörð Þórhallsson sem kom boltanum fyrir markið og þar var Björn mættur til að koma boltanum í netið.

Grímur Ingi Jakobsson gerði þriðja mark KV á 53. mínútu er hann labbaði auðveldlega í gegnum vörn Vestra áður en hann skoraði.

Hann var síðan aftur á ferðinni átta mínútum síðar. Vestri átti aukaspyrnu á fínum stað en hún var slök og náðu gestirnir að keyra í hraða sókn. Björn var með boltann og beið eftir því að Grímur tæki hlaupið, sem hann gerði. Hann fékk boltann, fór framhjá markverði Vestra og kom boltanum í markið.

Deniz Yaldir minnkaði muninn tveimur mínútum síðar. Hann slapp í gegn en boltinn fór af varnarmanni KV og í netið. Pétur Bjarnason gerði þá annað mark Vestra á 67. mínútu en það gerði hann með skalla eftir góða fyrirgjöf.

Vladimir Tufegdzic, leikmaður Vestra, var rekinn af velli á 81. mínútu. Varnarmaður KV reyndi að skalla bolta frá sem var heldur neðarlega og mætti Vladimir af fullum krafti með takkana á undan og uppskar rautt spjald fyrir.

Lokatölur 4-2 fyrir KV sem er áfram í 11. sæti með 7 stig og nú stigi frá öruggu sæti á meðan Vestri er í 8. sæti með 12 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner