Ísland verður á meðal þáttökuþjóða á EM kvenna í Englandi sumarið 2022. Þetta var staðfest eftir leiki kvöldsins í undankeppni EM.
Ísland lagði Ungverjaland að velli í síðasta leik sínum í undankeppninni í dag. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eina mark leiksins með þrumuskoti.
Ísland hafnaði í öðru sæti í sínum riðli á eftir Svíþjóð, en mun fara beint á EM sem ein af bestu þremur þjóðunum í öðru sæti. Liðið þarf ekki að fara í umspil sem er hið besta mál.
Niðurstaðan varð skýr eftir að Belgía vann sigur á Sviss í kvöld. Skotland og Ítalía eiga leiki inni og eiga enn möguleika á að ná Íslandi, en það eru einu tvær þjóðirnar sem geta náð Íslandi. Okkar stelpur eru þessa stundina með bestan árangur og því er það ljóst að við förum á EM.
Mótið átti að fara fram sumarið 2021, en því var frestað til 2022 eftir að EM karla var fært á næsta sumar vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta er fjórða Evrópumótið í röð sem Ísland fer á.
Athugasemdir