
„Flottur sigur, gott að sækja þrjú stig á erfiðum útivelli á móti sterku liði Fram“ sagði Lovísa Scheving, leikmaður Gróttu, eftir 1-6 sigur á Fram í nýliðaslag í Lengjudeildinni.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 6 Grótta
Aðspurð hvort hún hafi verið sátt með frammistöðuna hjá liðinu segir hún: „Já og nei. Mér fannst við geta mætt þeim með meiri krafti og meiri ákefð. Við urðum frekar 'sloppy' síðustu fimmtán mínútur leiksins þannig að það er eitthvað sem við getum alltaf bætt.“
Grótta spilaði Fram í kaf í leiknum en hvernig var leikurinn lagður upp af þeirra hálfu?
„Það sem við lögðum aðallega upp með var að koma kantmönnunum okkar í einn á einn stöðu á bakverðina sem að virkaði mjög vel og bara mæta til leiks af miklum krafti.“
Grótta hefur verið spútník lið Lengjudeildarinnar á þessari leiktíð en þegar Lovísa var innt eftir því að hvort að liðið væri ekki ánægt með byrjunina á mótinu sagði hún: „Jú. Þetta kemur okkur svo sem ekkert á óvart en það er fínt að koma öðrum á óvart sem að vita ekki hvernig Gróttuliðið er uppsett og hversu margir sterkir leikmenn eru innan liðs og gott þjálfarateymi.“