Fram hefur krækt í sex leikmenn á síðustu vikum, þeir koma til með að þétta leikmannahóp liðsins. Allir sex leikmennirnir spiluðu í Lengjudeildinni í sumar og voru byrjunarliðsmenn í sínum liðum. Leikmennirnir sem um ræðir eru: Sigurjón Rúnarsson og Kristófer Konráðsson (Grindavík), Viktor Freyr Sigurðsson og Róbert Hauksson (Leikni), Óliver Elís Hlynsson (ÍR) og Arnar Daníel Aðalsteinsson (Gróttu).
Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson, þjálfara Fram, og var hann spurður út í leikmannamálin.
Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson, þjálfara Fram, og var hann spurður út í leikmannamálin.
Hvernig nálguðust Framarar leikmannamarkaðinn?
„Í fyrsta lagi viltu tryggja að þú fáir leikmenn sem þú vilt fá og alltaf betra að reyna vera kominn með hópinn snemma, erum að fara af stað núna og flestir komnir í hópinn. Við höfum sótt leikmenn sem við teljum að geti styrkt hópinn, aukið breiddina og búið til meiri samkeppni sem er eitthvað sem við þurfum á að halda. Við þurfum að vera tilbúnir að takast á við áföll eins og meiðsli, eitthvað sem við lentum í í sumar, þurfum að hafa samkeppnina í lagi svo menn séu tilbúnir þegar kallið kemur. Maður er alltaf að leita að leikmönnum sem eru betri en þeir sem fyrir eru eða hafa möguleika á að verða Bestu deildar leikmenn. Þeir spiluðu allir í Lengjudeildinni, en allir (fyrir utan Óliver) hafa þeir fengið smjörþefinn af því að spila í efstu deild. Við erum að reyna finna réttu, góðu bitana sem við sjáum framtíð í og stráka sem þurfa kannski að fá að sýna sig og sanna betur í efstu deild," segir Rúnar.
Fannst þér of mikið bil á milli manna í sumar þegar lykilmenn voru að meiðast?
„Þetta var svolítið öfgafullt í okkar tilfelli. Við misstum fjóra leikmenn úr byrjunarliðinu í einum leik. Þá held ég að það skipti engu málið um hvaða lið sé að ræða, það mun alltaf verða óþægilega mikið 'drop'. Við töldum okkur þurfa að stækka leikmannahópinn og fá meiri samkeppni um allar stöður. Það er ýmislegt sem við þurfum að tryggja og hafa í lagi, við viljum vera öruggir með að breiddin sé nægileg til að glíma við allt sem á okkur getur dunið."
Hafa allir jafna möguleika
Horfirðu á þessa sex leikmenn þannig að hver og einn þeirra á möguleika á að vinna sér inn byrjunarliðssæti?
„Ég geri það. Við lítum á þá alla sem leikmenn sem geta barist um sæti í liðinu og geta sett gríðarlega mikla pressu á þá sem voru í liðinu 2024 með nokkuð fast sæti. Þetta eru allt leikmenn sem við erum mjög ánægðir með að hafa fengið til okkar og eru með möguleika á að verða betri. Þeir þurfa kannski að fá mínútur í Bestu deildinni til að verða betri. Þeir geta bætt sig með því að æfa með betra liði, æfa í meiri samkeppni en þeir voru í. Vonandi eru þarna leikmenn sem geta brotist inn í byrjunarliðið og ná að gera sig ómissandi. Það er kannski ekki hægt að búast við því að allir sex nái að brjóta sér leið í byrjunarliðið, en þeir fá tækifæri til að berjast fyrir því, það byrja allir á sama stað og hafa jafna möguleika. Vonandi verður heilbrigð og góð samkeppni um stöður."
Vonandi framtíðarmúsík fyrir Fram
Arnar Daníel er úti í Bandaríkjunum í námi og nær því ekki að æfa mikið með liðinu í vetur og missir af bæði byrjun og enda tímabilsins á Íslandi. Er mikill galli að leikmaðurinn geti ekki verið allt tímabilið með liðinu?
„Auðvitað er þetta mikið galli, en með Arnar Daníel vissum við alveg hver staða hans yrði næstu árin. Við erum líka að horfa á hann sem framtíðarmúsík fyrir Fram. Það kemur að því að skólinn klárist og hvort sem hann er leikmaður Gróttu eða Fram á meðan hann er í náminu, það skiptir ekki alveg öllu, en þegar hann er búinn þá verður hann vonandi leikmaður Fram áfram."
„Hann mun æfa með okkur í einhverjar vikur núna í desember og verður á Íslandi í þrjá mánuði í sumar. Við getum séð hann á æfingum með okkur, séð hversu öflugur hann er og séð hvort hann getur spilað með okkur. Svo er alltaf möguleiki á að lána leikmenn svo þeir fái mínútur, en við erum ekkert búinn að ákveða neitt með það eða spá í því."
„Bróðir hans er hérna hjá okkur (Aron Kári) og við sjáum framtíð í Arnari og erum að hugsa hann til lengri tíma líka."
Um helgina framlengdu þeir Guðmundur Magnússon og Magnús Ingi Þórðarson samninga sína við Fram.
„Þetta eru uppaldir Framarar, strákar sem við viljum hafa í félaginu og í kringum það. Þeir þekkja félagið inn og út og stóðu sig báðir vel í sumar. Þeir lögðu sitt af mörkum til að hjálpa mér og þjálfarateyminu að komast inn í félagið. Það er öflugt að halda uppöldum leikmönnum sem geta hjálpað félaginu að taka næstu skref. Við erum að reyna verða faglegri í öllu og þá er alltaf gott að vera með menn hér inni sem þekkja hvernig hlutirnir virka. Við viljum bretta upp ermar, reyna gera betur, bæta okkur og koma Fram ofar á töfluna."
Dregur lærdóm af mótinu fyrir tvískiptingu - Leiðinlegt gagnvart Fylki
Fram var í 7. sæti Bestu deildarinnar þegar deildinni var skipt í tvo helminga og endaði í 9. sæti í lok tímabils. Fram tapaði átta af síðustu tíu leikjum á tímabilinu og hefur Rúnar sagt frá því að hann sé ekki hrifinn af úrslitakeppninni.
„Við erum búnir að fara vel yfir lokakaflann, hvað fór úrskeiðið og hvað hefði mátt gera betur. Mesti lærdómur minn og félagsins er að horfa í 22 leikja mót. Mér finnst úrslitakeppnin alls ekki gefa rétt mynd af hlutum sem hafa verið gerðir allt tímabilið. Það eru alltof margar breytur sem verða rangar í úrslitakeppninni. Það ar sem dæmi lið í neðri hlutanum sem enduðu með fleiri stig en FH sem endaði í 6. sæti, svolítið skrítið. Það er fullt af hlutum sem brenglast."
„Ég ætla ekki að afsaka eitt né neitt, en í okkar stöðu finnst mér best að horfa í 22 leikja mót. Við vorum í 7. sæti eftir það, vinnum fyrsta leik í úrslitakeppni, tryggðum okkar veru í deildinni þar og svo voru menn bara hættir. Það er hægt að gagnrýna mig og leikmennina fyrir að hafa bara hætt, mér fannst það ofboðslega leiðinlegt gagnvart þeim liðum sem það hafði áhrif á. Sérstaklega Fylki, lið sem við vinnum í fyrsta leik og tryggjum okkur uppi. Eftir það töpum við öllum leikjum. Það er mjög ósanngjarnt gagnvart Fylki."
„Um leið og liðin eru örugg og þú hefur ekki að neinu að keppa, þá deyr dálítið margt inni í þér. Það voru fleiri lið sem gerðu svipað, en voru kannski ekki eins slæm og við. Við verðum að lifa með þessu fyrirkomulagi. Þó að ég sé ósáttur við það, þá eru margir sem eru sáttir við það og finnst það gaman. Mín skoðun þarf ekki að vera rétt," segir Rúnar.
Athugasemdir