Gluggadagsslúðrið - Man Utd reynir að styrkja sóknarlínuna - Ferguson hefur staðist læknisskoðun - Aston Villa að fá Asensio
   mán 03. febrúar 2025 20:05
Brynjar Ingi Erluson
Arnór Ingvi svekktur - TIlboði frá Burton hafnað
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Ingvi Traustason, leikmaður Norrköping og íslenska landsliðsins, segist fremur svekktur yfir því að sænska félagið hafi hafnað tilboð frá enska C-deildarfélaginu Burton Albion, en þetta sagði hann í samtali við Fotbollskanalen.

Miðjumaðurinn er staddur í æfingarferð með Norrköping á Spáni, en hann hefur eytt miklum tíma i símanum að fylgjast með stöðunni eftir að Burton lýsti yfir áhuga á að fá hann.

Burton lagði fram tilboð í Arnór í dag en Norrköping hafnaði því um leið.

„Klúbburinn hafnaði fyrsta tilboði. Það er svolítið svekkjandi. Það hefur verið smá áhugi undanfarið en síðan kom tilboð frá Englandi í dag,“ sagði Arnór við sænska miðilinn.

Burton, sem situr í 21. sæti ensku C-deildarinnar, er í eigu Nordic Football Group Limited, en sex Íslendingar eru hluti af fjárfestingahópnum, þar á meðal Ólafur Páll Snorrason, fyrrum leikmaður FH.

Á dögunum samdi Jón Daði Böðvarsson við félagið eftir að hafa yfirgefið Wrexham. Hann hefur byrjað vel og skorað fjögur mörk í fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni.

Glugginn á Englandi lokar klukkan 11 og verður spennandi að sjá hvort Burton komi með annað tilboð í Arnór.
Athugasemdir
banner