Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 03. mars 2024 20:31
Brynjar Ingi Erluson
„Hvert einasta tap skaðar félagið“
Bruno Fernandes
Bruno Fernandes
Mynd: EPA
Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, var temmilega sáttur við framlag sinna manna í 3-1 tapinu gegn nágrönnunum í Manchester City á Etihad í dag.

United-liðið fékk draumabyrjun er þrumufleygur Marcus Rashford hafnaði í slá og inn.

Englandsmeistararnir stjórnuðu leiknum meira og minna en United fékk svo sannarlega tækifærin til að særa heimamenn, en náðu ekki að nýta nægilega vel.

„Mér fannst skuldbinding liðsins vera til staðar. Við fengum okkar færi en stundum fórum við heldur djúpt niður á völlinn. Þið vitið samt að Man City gerir þetta við öll lið. Þú þarft að verjast í teignum þínum og mér fannst við gera það mjög vel í fyrri hálfleiknum. Þetta fór úr því að vera gott færi fyrir okkur í 1-1,“ sagði Fernandes.

„Það er alltaf eitthvað sem má betur fara, hvort sem það sé gegn City eða einhverju öðru liði. City er lið sem veit hvernig á að halda í boltann og láta andstæðinginn leggjast aftarlega. Við vissum að við þyrftum að verja markið vel og það fannst mér við gera vel, en við hefðum átt að halda meira í boltann en við gerðum í seinni hálfleiknum,“ sagði fyrirliðinn.

United er ellefu stigum frá fjórða sætinu sem gefur þátttöku í Meistaradeildina, þó það sé vissulega ágætis möguleiki á að fimmta sætið muni gefa þátttöku í keppnina.

„Í hvert einasta skipti sem þú vinnur ekki leik þá skaðar það félagið. Við vitum hvað þetta félag krefst frá okkur og við viljum vinna þá leiki sem við spilum. Við fengum ekki þrjú stig í dag en það er mikið eftir. Við vitum að þetta er ekki bara í okkar höndum því önnur lið þurfa að tapa stigum en við verðum alla vega að gera okkar,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner