þri 04. maí 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Jákvæðni í kringum liðið, umgjörðina og félagið í heild"
Lengjudeildin
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Fram og Leiknis í fyrra.
Úr leik Fram og Leiknis í fyrra.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Fagnað í Safamýri.
Fagnað í Safamýri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram náði að halda Fred.
Fram náði að halda Fred.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðalsteinn Aðalsteinsson og Jón, þjálfarar Fram.
Aðalsteinn Aðalsteinsson og Jón, þjálfarar Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nær Fram að komast upp í ár?
Nær Fram að komast upp í ár?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er ekkert sem kemur á óvart í sjálfu sér miðað við undanfarin ár og liðið sem við erum með. Fyrst og fremst er þetta skemmtileg pæling, spá og umfjöllun," segir Jón Sveinsson, þjálfari Fram, í samtali við Fótbolta.net.

Fram er spáð öðru sæti í Lengjudeildinni af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar. Hægt er að lesa umfjöllun um liðið með því að smella hérna.

„Ég held að það verði einhver fleiri lið að keppa um þessi sæti en við erum klárir í þann slag."

Á von á mjög harðri samkeppni
Þjálfarar í deildinni hafa talað um það að deildin í ár verði jöfn og skemmtileg. Hún var gríðarleg skemmtileg í fyrra áður en mótið var blásið af.

„Ég á von á því að þetta verði jafnvel jafnara og skemmtilegra en þetta var í fyrra. Það eru klárlega fleiri lið en við sem stefna á að fara upp úr deildinni. Ég á von á mjög harðri samkeppni um þessi efstu tvö sæti. Það er klárt að öll liðin í þessari deild geta unnið alla. Það verður mjög hörð samkeppni í sumar," segir Jón en það hefur gengið vel hjá Fram í vetur.

„Það var Covid stopp náttúrulega og við erum að koma okkur í gang. Veturinn gekk nokkuð vel þannig lagað séð, aðeins óhefðbundið. Manni sýnist á fyrstu leikjunum í Pepsi Max-deildinni að liðinu séu aðeins ryðgaðri en oft áður."

„Við fengum einhverja skelli á undirbúningstímabilinu en úrslitin skipta ekki mestu máli, heldur það sem er framundan. Heilt yfir er ég nokkuð sáttur með undirbúningstímabilið."

Mikil samkeppni og mikil breidd
Fram mætir til leiks með öflugan leikmannahóp, jafnvel sterkari hóp en þann sem var í fyrra.

„Staðan er þokkaleg, það eru eitthvað smá hnjask hér og þar, og einhver meiðsli. Við erum ágætlega mannaðir og það kemur alltaf maður í manns stað. Við munum alltaf stilla upp okkar sterkasta liði. Við erum með stóran hóp og þú hefur aldrei úr öllum að velja; það eru meiðsli, leikbönn og svoleiðis. Það er mikil samkeppni og mikil breidd, þannig að við erum mjög ánægðir með hópinn."

Guðmundur Magnússon gekk nýverið í raðir Fram frá Grindavík og í dag voru tilkynnt félagaskipti á enska miðjumanninum Danny Guthrie sem er með reynslu úr ensku úrvalsdeildnni. Það kemur til með að reynast mikill liðsstyrkur fyrir Fram.

Jákvæðir straumar
Jón er á leið inn í sitt þriðja tímabil sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Fram. Jón er einn leikjahæsti leikmaður í sögu Fram með 312 leiki fyrir meistaraflokk félagsins. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með félaginu á 9. áratugnum. Frá því hann tók við hefur verið meiri jákvæðni í garð liðsins.

„Ég held að það séu margir þættir sem spila inn í. Ég kem þarna inn og þekki félagið mjög vel. Ég er alinn þarna upp og hef eytt stórum hluta ævinnar þarna. Eitt af því líka er að við tókum skynsama ákvörðun um að spila í Safamýri. Það hefur gert umgjörðina í kringum liðið, og félagið, skemmtilegt. Við eignuðumst heimavöll sem hefur ekki verið til staðar lengi. Það eru margir þættir sem spila inn í."

„Það er jákvæðni í kringum liðið, umgjörðina og félagið í heild sinni undanfarið. Það er bara jákvætt og gaman að því."

Fram spilaði fyrir nokkrum árum á Laugardalsvellinum. „Við vorum jafnmiklir gestir þar og liðið sem kom og spilaði við okkur. Núna erum við á okkar heimavelli með okkar klefa og fólkið í félaginu að vinna í kringum völlinn. Það er bara allt önnur umgjörð."

Svekkjandi endir í fyrra
Tímabilið endaði á mjög svekkjandi máta fyrir Framara. Liðið var í þriðja sæti með jafnmörg stig og Leiknir í öðru sæti þegar mótið var blásið af. Leiknir fór upp á markatölunni og Fram sat eftir. Það voru tveir leikir eftir þegar mótið var blásið af.

„Auðvitað vorum við ósáttir. Ég held að flestir hafi viljað klára mótið og fá að spila þessa leiki sem voru eftir. Það er eðlilegast. Ég öfunda ekki þau sem þurftu að taka þær ákvarðanir," segir Jón og bætir við:

„Við getum lítið annað en kyngt því og haldið áfram. Það er ekkert öðruvísi. Við getum ekkert gert eða breytt í því. Félagið fór að sjálfsögðu í að skoða rétt sinn, eins og kom fram. Ég held að hópurinn og við í kringum liðið, við tókum þessu strax bara eins og það var. Það er bara áfram gakk, það er nýtt mót að byrja í vikunni og það eru ný tækifæri í því."

Ná að halda Fred
Fram gerði nýjan samning við hinn portúgalska Fred Saraiva á síðasta ári þrátt fyrir að það hefði verið áhugi á honum úr Pepsi Max-deildinni.

„Jú, það er frábært að ná að halda Fred og öðrum leikmönnum. Það hafa ekki orðið miklar breytingar á milli ára. Við misstum Unnar og Hilmar fór aftur austur á firði. Við fengum Indriða og Óskar inn. Svo bættist Gummi við á síðustu stundu. Við teljum okkur vera með sambærilegan hóp frá því í fyrra og við erum klárir í þessa baráttu sem er framundan."

„Það er alltaf gott að halda góðum leikmönnum, það er ekki spurning."

„Hópurinn er alla vega ekki veikari en hann var í fyrra - að mínu mati. Það verður að koma í ljós hvernig þessir leikmenn koma inn, það hefur gengið mjög vel hingað til. Ég á ekki von á öðru en að við erum með samkeppnishæft lið í að berjast um að komast upp úr deildinni."

Getur Fram höndlað pressuna?
Fram féll úr efstu deild fyrir sjö árum síðan og núna er talað um þá sem eitt af tveimur bestu liðum Lengjudeildarinnar. Geta þeir höndlað pressuna og unnið sér aftur inn sæti í deild þeirra bestu?

„Það er alveg rétt, okkur var ekki endilega spáð því gengi sem við sýndum í fyrra. Auðvitað er það þannig að þegar þú færð svona spá, þá mun það setja smá kröfu á okkur. Í fyrra ætluðum við okkur ekki annað en upp. Þau sem höfðu verið að fylgjast með okkur, það fólk ætlaðist til þess að við værum í þessari baráttu sem við svo vorum í. Auðvitað var ekki mikil utanaðkomandi pressa og núna er búið að stilla okkur þarna upp í þessari spá, en þetta er fyrst og fremst bara spá og til gamans gert," segir Jón.

„Ég held að það eigi ekki þannig að vera auka álag á leikmenn. Ef leikmenn ætla hvort sem er að gera eitthvað á ferlinum eða ná árangri þá þurfa þeir að höndla það."

Markmiðið er skýrt hjá Frömurum. „Það er að fara upp. Við náum því með að vinna leikina. Við förum í alla leiki til að vinna. Í fyrra vorum við mjög góðir á útivelli og árið á undan vorum við bestir á heimavelli. Við reynum að ná því saman í ár og þá vinnum við þessa deild."

„Það er kominn tími á Fram í efstu deild og vonandi sjáum við það rætast í haust," sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram sem er spáð öðru sæti í Lengjudeildinni í sumar.
Athugasemdir
banner
banner