
Miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson ræddi við Fótbolta.net á æfingu íslenska landsliðsins í dag. Framundan er risaleikur gegn Tyrklandi ytra í dag eins og landsmenn eru vel meðvitaðir um.
„Þetta verður spennandi og erfiður leikur. Eins og við viljum hafa það. Við höfum oftar en ekki stigið upp þegar mest hefur legið við. Það er gaman að spila þannig leiki og þetta verður mjög gaman," segir Raggi.
Talsverð umræða hefur verið um hvort Kári eða Sverrir verði í miðverðinum en allir búast við því að Raggi verði annar miðvörðurinn. Hvað segir Raggi um þessa umræðu?
„Ég hef ekkert tekið eftir þessari umræðu. Það er ekki langt síðan ég var ekki viss sjálfur um hvort ég væri að spila. Þegar ég hafði ekkert spilað með Fulham. Það er jákvætt að við erum með marga góða varnarmenn."
Raggi gekk í sumar í raðir Rubin Kazan í Rússlandi og hefur leikið vel eftir erfiðan tíma hjá Fulham.
„Mér persónulega hefur gengið vel og ég hef fengið ágætis „restart" á minn feril síðan þetta klúður var hjá Fulham. Ég fattaði ekki alveg hvað ég var langt niðri fyrr en eftir á. Þegar ég var kominn á nýjan stað fattaði ég hvað maður var kominn í rugl í hausnum."
„Þetta var í fyrsta sinn á mínum ferli sem ég þurfti að höndla alvöru mótlæti. Það var erfitt og ömurlegt að vera í þessari stöðu."
Ragga líður vel í Rússlandi en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir