KR og Afturelding skildu jöfn að í mögnuðum leik á Meistaravöllum fyrir skömmu. KR er í botnsæti deildarinnar og eiga tvo leiki eftir af mótinu. Aron Sigurðarson fyrirliði KR mætti í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: KR 2 - 2 Afturelding
„Ég held að þetta sé eins svekkjandi og þetta verður. Við skorum á 93. og þeir skora í næstu sókn. Hann (punkturinn) gerir ekkert fyrir okkur í dag. En það er leikur á morgun, síðan er önnur umferð og lið eiga eftir að spila innbyrðis. Við þurfum að sjá eftir næstu tvo leiki, þetta gæti talið, gæti ekki talið.“
Ef Vestri vinnur á morgun verður KR fimm stigum frá öruggu sæti þegar sex stig eru eftir í pottinum.
„Staðan er skelfileg. Vonandi á margt eftir að gerast og vonandi spilast þetta aðeins okkur í hag. Við þurfum að klára okkar og sjá hvað gerist í lokin.“
„Auðvitað er maður skíthræddur um að falla með KR. Maður leyfir sér ekkert að hugsa of mikið um þetta, en auðvitað er þetta þarna. Maður þarf einhvern veginn að láta óttann hjálpa sér. Það er ekki hægt að velta sér upp úr þessu.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.