Þorlákur Már Árnason þjálfari ÍBV svaraði spurningum eftir tap á heimavelli gegn ÍA í neðri hluta Bestu deildarinnar.
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 2 ÍA
Eyjamenn björguðu sér frá falli í dag þrátt fyrir tapið, þökk sé jafnteflisúrslitum í Vesturbæ þar sem botnlið KR og Aftureldingar skildu jöfn.
„Besta færið okkar kom þegar Oliver slapp í gegn og markmaðurinn hjá ÍA varði en svo var þetta mikið svona 'næstum því' fannst mér. Þó að við höfum kannski skapað fleiri opnanir heilt yfir í leiknum þá var þetta bara einn af þessum dögum. Við vorum ekki nægilega sterkir í vítateig andstæðinganna og svo fáum við á okkur svolítið ódýr mörk," sagði Láki eftir tapið, en þetta er fyrsta tap Eyjamanna á heimavelli eftir að nýja gervigrasið var lagt fyrr í sumar.
„Þetta er búið að vera gríðarlega krefjandi tímabil og ég er fyrst og fremst mjög stoltur af liðinu að hafa tryggt sæti í deildini. Ég er búinn að þurfa að setja saman tvö eða þrjú lið síðan ég byrjaði."
Eyjamenn hafa staðið sig mjög vel þrátt fyrir ótrúleg meiðslavandræði í hópnum í allt sumar og er markmið liðsins að enda í efsta sæti neðri hlutans.
ÍBV á eftir að spila við KR og KA í síðustu tveimur umferðum tímabilsins. Eyjamenn eru í baráttu við KA og ÍA um toppsæti neðri hlutans.
Athugasemdir