Xabi Alonso svaraði ýmsum spurningum á fréttamannafundi í gær fyrir leik Real Madrid gegn Villarreal sem fer fram í kvöld.
Hann var spurður út í ýmsa leikmenn og ræddi meðal annars um Jude Bellingham sem var ekki valinn í landsliðshóp Englands.
„Það er bara tímaspursmál hvenær Bellingham snýr aftur í enska landsliðið. Honum líður betur eftir meiðslin og er með mikinn metnað til að gera vel. Það er bara tímaspursmál hvenær hann verður aftur upp á sitt besta," sagði Alonso, sem var einnig spurður út í Arda Güler.
Güler og Bellingham spila svipaða stöðu en Alonso telur að þeir geti leikið saman á vellinum.
„Arda og Jude geta spilað saman, þeir þurfa bara að ná betri tengingu. Þegar þeim byrjar að líða þægilega saman þá munu þeir smella, þeir eru með eiginleika sem passa mjög vel saman."
Alonso svaraði einnig spurningum um Federico Valverde og Endrick. Hann vísar sögusögnum um rifrildi á milli sín og Valverde á bug og segir að tími Endrick muni koma fljótt.
„Það er enginn leikmaður í hópnum sem hefur neitað að spila ákveðna stöðu sem ég hef beðið viðkomandi leikmann um að spila, það er ekkert til í því. Allir leikmenn liðsins eru tilbúnir til að spila hvar sem ég vil að þeir spili.
„Tími Endrick nálgast. Hann er að koma aftur úr meiðslum og getur gert góða hluti. Hann er alvöru markaskorari, mér líkar vel við hann."
Athugasemdir