
Valur hefur staðfest félagsskipti Berglindar Rósar Ágústsdóttur til félagsins frá Sporting Huelva sem leikur í efstu deild spænska boltans. Berglind snýr því aftur til uppeldisfélagsins.
Berglind Rós er öflugur og gríðarlega fjölhæfur varnarmaður, fædd 1995, og var komin með fast sæti í byrjunarliði Huelva í vor. Hún hjálpaði liðinu að bjarga sér eftir harða fallbaráttu og hefur ákveðið að spila á Íslandi í sumar.
Berglind, sem á fjóra A-landsleiki að baki, var með samningstilboð á borðinu frá bæði Breiðabliki og Val en kaus að lokum að fara til uppeldisfélagsins. Norska félagið Brann hefur einnig sýnt Berglindi áhuga að undanförnu.
Berglind lék lengst af fyrir Fylki í íslenska boltanum en spilaði einnig fyrir Aftureldingu, auk Vals. Þar að auki hefur hún spilað með Örebro í sænska boltanum.
Valur vermir toppsæti Bestu deildar kvenna sem stendur, með 13 stig eftir 6 umferðir. Breiðablik fylgir fast á eftir með 12 stig.
Sjá einnig:
Berglind Rós með tilboð frá bæði Breiðabliki og Val